Í nærmynd er Rakel Rós Friðriksdóttir keppandi í módelfitness.

Hvernig hefur gengið að komast í form eftir að þú eignaðist barn?

Það hefur aldrei verið vesen. Ég átti erfitt með að bíða eftir því að komast á æfingar eftir að ég eignaðist strákinn minn. Svo var haldið að hann væri með mjólkuróþol og ég tók út alla mjólk og þá var erfitt að borða eitthvað annað en hollt svo ég þurfti ekki mikið að hugsa um það að koma mér í form. Mér líður líka best þegar ég borða hollt og hreyfi mig mikið.

Aldur og fyrri störf?

Ég er 21 árs og er að klára stúdentinn núna um jólin og vinn sem vaktstjóri á barnum Frón á Selfossi. Í sumar var ég yfir bæjarvinnunni í Hveragerði sem var rosalega gaman.

Hvaðan ertu?

Ég er fædd og uppalinn í Hveragerði og bý þar núna.

Rakel Rós með soninn Friðrik.

Fjölskylduhagir?

Ég og strákurinn minn búum saman hjá foreldrum mínum í augnablikinu á meðan við bíðum eftir að íbúðin okkar hérna í Hveragerði losnar. Það er búið að vera frábært, foreldrar mínir eiga mikið hrós skilið. Þau standa þétt við bakið á mér og styðja mig alveg rosalega í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Svo á ég tvær systur en önnur þeirra býr í Danmörku með kærasta sínum og barni og hin er í háskóla í Reykjavík og býr þar.

Helstu áhugamál?

Næstum því öll líkamsrækt og vera með vinum og fjölskyldu, ég bókstaflega nærist á því.

Uppáhalds tónlist?

Ég hlusta á allt fer bara eftir því hvernig skapi ég er í.

Uppáhaldskvikmynd?

Klárlega Peaceful worrior.

Hvaða bók tækirðu með á eyðieyju?

Brandarabók

Hvernig er fullkomin helgi?

Þar sem ég hreyfi mig mikið og er með syni mínum þegar það er ekki pabba helgi og ég er ekki að vinna. Svo eru líka vinnuhelgarnar á Frón mjög skemmtilegar og þá fæ ég góðan tíma fyrir sjálfa mig og ræktina, geri lítið annað en að vinna, sofa og eyði miklum tíma í ræktinni þær helgar.

Hver er uppáhalds veitingastaðurinn?

Sushi Social.

Uppáhalds óholli maturinn?

Sushi! Og allt súkkulaði! Sérstaklega Kinder og Milka.
Uppáhalds holli maturinn?

Kjúklingur. Fæ aldrei nóg.

Hvenær ferðu á fætur á morgnana?
6:30 en ef ég tek morgunbrennslu þá 5:30.

Hefur þú lent í vandræðalegu augnabliki?

Já margoft, en nýlega fór ég aftur inn í búð og spurði um símann minn og maðurinn benti mér á að hann væri í hendinni á mér.

Leikhús eða bíó?

Bæði jafn skemmtilegt þegar maður gefur sér tíma.

Uppáhaldsíþróttamaður?

Þeir eru svo margir en í þessu sporti eru það Margrét Gnarr, Ashley Kaltwasser og Kristín Kristjánsdóttir.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Gef mér tíma til að borða morgunmat með stráknum mínum, skutla honum síðan í leikskólann, fer í skólann og næ síðan í strákinn minn og mamma passar hann á meðan ég fæ að skjótast í ræktina. Svo kem ég heim og nýt þess að vera með stráknum mínum þangað til að ég svæfi hann. Þá geri ég næsta dag tilbúinn og kíki svo á lærdóminn.

Hvaða bók ertu með á náttborðinu?

Oftast bara sú sem ég er að lesa fyrir skólann.

Hvað drekkurðu marga kaffibolla á dag?

Fæ mér mjög marga Celcius á dag.

Hver er draumaborgin til að ferðast til?

Í augnablikinu hugsa ég mikið um að fara til Ástralíu og þá Sydney en annars langar mér að ferðast mikið og stefni á það í framtíðinni.

Hvað ætlarðu að gera á næstunni?

Útskrifast sem stúdent og fara síðan í háskóla og læra sálfræði. Síðan langar mig alveg rosalega að stefna á að keppa úti í módelfitness.