Í dag lauk Heimsmeistaramóti IFBB í fitness sem fór fram í Búdapest í Ungverjalandi. Fjórir íslenskir keppendur stigu þar á svið á einu stærsta móti sem haldið hefur verið, en um 350 keppendur kepptu á mótinu. Í gær hafnaði Una Heimisdóttir í þriðja sæti í unglingaflokki í fitness og í dag hafnaði Kristín Kristjánsdóttir í sjötta sæti í flokki 45 ára og eldri. Báðar kepptu þær í erfiðum flokkum, en sigurvegarar um 40 landa stigu á svið að þessu sinni. Þær Elva Katrín Bergþórsdóttir og Linda Jónsdóttir kepptu einnig á mótinu en komust ekki í sex efstu sætin í sínum flokkum.

Jóhann Norðfjörð alþjóðadómari er að dæma á heimsmeistaramótinu og sat í tveimur af þremur dómarapanelum á mótinu og dæmdi í 12 tíma í gær og 12 tíma í dag. Fjölmennustu flokkarnir eru um 30 manna flokkar þar sem byrjað er á að finna 15 efstu í hverjum flokki í fyrstu lotunni og þegar þeir liggja fyrir eru þessir 15 dæmdir í sæti. Sex efstu af þeim komast áfram í úrslit og verðlaunaafhendingu. Mótið hefur því verið bæði langt og strangt fyrir keppendur sem og dómara um helgina. Þessi árangur íslensku keppendana er frábær í ljósi þess að um er að ræða heimsmeistaramót. Undanfarin ár hafa íslenskir keppendur haldið erlendis til keppni á hinum ýmsu alþjóðlegu mótum sem eins og gefur að skilja eru misjanlega erfið. Þrjú mót standa þar efst hvað erfiðleikastig varðar. Evrópumótin sem haldin eru í á vorin, heimsmeistaramót opinna flokka sem haldin eru í lok september eða byrjun október og síðan heimsmeistaramót öldunga og unglinga sem haldin hafa verið í byrjun desember. Þessi mót eru erfiðustu mótin sem í boði eru og að öðrum mótum ólöstuðum tróna þau efst á afrekalistanum. Þar á eftir koma mótin sem kennd eru við Arnold Schwartzenegger í Bandaríkjunum og Evrópu. Við megum því vel við una að hafa komið tveimur keppendum á verðlaunapall á þessu sterka móti.