IFBB logo

Dagana 28.-29. mars fer fram Íslandsmótið í fitness, módelfitness og vaxtarrækt í Háskólabíói. Löng hefð hefur skapast fyrir því að halda Íslandsmótið um Páskana og að venju er keppt á fimmtudegi og föstudegi. Að þessu sinni verður keppt í fitness og vaxtarrækt á fimmtudeginum en keppt er í módelfitness á föstudeginum. Gríðarleg aukning hefur orðið í keppendafjölda á undanförnum árum, sérstaklega meðal kvenna eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti sem nær aftur til ársins 1982 þegar keppni hófst á vegum IFBB hér á landi.

Ætla má að aukninguna megi rekja til innleiðingar líkamsræktar í lífsstíl landsmanna. Sífellt fleiri stunda reglulega líkamsrækt og sífellt fleiri hefja keppni í þeim keppnisgreinum sem þeim hentar. Ennfremur má rekja aukninguna til viðvarandi fræðslu og kynningar á líkamsrækt sem lífsstíl og gildi líkamsræktar fyrir heilbrigði. Fitnessfréttir og fitness.is sem nú hefja sitt fimmtánda starfsár eiga þar eflaust þátt auk sívaxandi fjölda keppenda sem sýna almenningi með fordæmi sínu hvað líkamsrækt felur í sér.

Á komandi Íslandsmóti er búist við gríðarlegum fjölda keppenda en hvort enn eitt þátttökumetið verður slegið kemur í ljós þegar nær dregur. Skráningar keppenda munu hefjast hér á fitness.is innan skamms og ítarlegri dagskrá mun líta dagsins ljós.