konasixpackbolÍ kjölfar mikillar umræðu um kolvetni í mataræðinu hefur athygli næringarfræðinga beinst að þeim í auknum mæli í seinni tíð. Á alþjóðlegri ráðstefnu samtaka næringarfræðinga víðsvegar að úr heiminum voru gefnar út leiðbeiningar til almennings um kolvetni í mataræðinu. Fólki er bent á að forðast óvænta toppa í blóðsykri með því að borða frekar flókin kolvetni í stað einfaldra. Flókin kolvetni eru mun lengur að meltast en einföld. Svonefnt glýsemíugildi er mælikvarði á það hversu hratt ákveðnar fæðutegundir frásogast í meltingarkerfinu eða öllu heldur hversu hratt blóðsykur hækkar eftir neyslu á ákveðnum fæðutegundum.

Ef blóðsykur hækkar oft, hratt og mikið í kjölfar máltíða með einföldum kolvetnum á borð við hvítan sykur, kökur og sætindi er mun meiri hætta á að fólk þrói með sér áunna sykursýki.

Briskirtillinn hættir að ráða við álagið sem fylgir sykurátinu og insúlínframleiðsla minnkar. Með því að borða flóknari kolvetni verða sveiflurnar í blóðsykrinum jafnari og fólk fær mun síður áunna sykursýki. Fæðutegundir með lágt glýsemíugildi hækka blóðsykurinn hægt en þær sem hafa hátt glýsemíugildi hækka hann hratt. Kosturinn við fæðutegundir með lágt glýsemíugildi er ekki bara sá að blóðsykurinn helst stöðugri, heldur líka sá að þessar fæðutegundir innihalda í mörgum tilfellum mikið af trefjum. Trefjar eru afar mikilvægar fyrir meltingu, heilbrigði meltingarkerfisins og blóðsykurinn.
Það er sérlega mikilvægt fyrir aldraða að borða fæðutegundir með lágu glýsemíugildi vegna þess að talið er að þessar fæðutegundir dragi til lengri tíma úr líkunum á hjartasjúkdómum, of mikilli blóðfitu og það sem í seinni tíð er að fá aukna athygli – minnki bólgur í líkamanum. Tengsl hjartasjúkdóma og fæðutegunda sem ýta undir bólgur í líkamanum eru í seinni tíð að fá aukna athygli vegna samspils þar á milli.
(Nutrition, Metabolism & Cardiovascular Diseases 25: 795-815, 2015)