Það eru ýmsar hugmyndir um það að íþróttamenn borði eða eigi að borða allt annað fæði en við venjulega fólkið. Hér á eftir koma nokkrar fullyrðingar um mataræði íþróttamanna og fylgir sögunni hvort þær eru sannar eða ekki.

1. Það er mikill munur á mataræði íþróttamanna og venjulegu fæði.

Rangt. Mataræði sem er hollt og heilnæmt á allan hátt er einnig gott til þess að stuðla að betri árangri íþróttamanna. Aðal munurinn felst í því að þeir sem æfa ættu að borða meira af kolvetnum, en þau eru orkuforði vöðvanna. Ef ekki er borðað nógu mikið af kolvetnaríku fæði þá hafa vöðvarnir hreinlega ekki næga orku til þess að komast í gegnum erfiða æfingu. Mataræði hjá íþróttamönnum ætti að vera á bilinu 55 – 60% kolvetni. Hvað það varðar þá eru flestir sammála um að íþróttamenn ættu að borða mikið af ávöxtum og grænmeti og annað eins af korni.

2. Kolvetni eru fitandi.

Rangt. Þú þarft á kolvetnum að halda til þess að gefa vöðvunum orku og þú brennir þeim þegar þú æfir. Það að borða hins vegar of margar heildar hitaeiningar þýðir það að menn geta fitnað. Til þess að sporna við því er fljótlegast að skera niður neyslu á smjöri, smjörlíki, olíum, majonessósum og öðrum svipuðum fituafurðum.

 

3. Fita inniheldur fleiri hitaeiningar heldur en kolvetni.

Rétt. Kolvetni og prótein innihalda fjórar hitaeiningar í gramminu en fitan er hins vegar með níu hitaeiningar í gramminu. Íslendingar borða allt of mikið af fitu samkvæmt könnun sem Manneldisráð Íslands gerði fyrir ekki alls löngu. Hlutfall fitu í fæðunni ætti að vera 30 – 35% í mesta lagi í venjulegu fæði en ekki meira en 25% í fæði íþróttamanna. Ef menn vilja hins vegar létta sig ætti þessi tala að vera á bilinu 15 – 20% Staðreyndin er sú að Íslendingar borða mun meira en 35% að jafnaði.

 

4. Þegar æfingar eru stundaðar þarf að borða mikið af próteini.

Rangt og rétt. Prótein er mikilvægt til þess að byggja upp og viðhalda vöðvum, framleiða hormón, ensím, og endurnýja rauðar blóðfrumur svo eitthvað sé nefnt. Engu að síður borðar fólk yfirleitt nægilega mikið af próteini til þess að uppfylla ofangreindar þarfir. Hinsvegar í þeim tilfellum þar sem um gríðarlega miklar æfingar er að ræða og uppbyggingu gæti þurft að borða meira af próteini en venjulega, en í rauninni ekki það mikið að það breyti orkuhlutföllunum í fæðunni. Orkan sem fæst úr próteini ætti að vera um 15 – 20%.

 

5. Vítamín gefa manni orku og það ætti að borða nægilega mikið af þeim til þess að vera viss um að líða ekki skort.

Rangt. Ekkert af hinum 14 þekktu vítamínum gefa orku. Sum vítamín hjálpa líkamanum við það að nýta orku úr fitu, kolvetnum og próteini, en þau fást einnig ef borðað er heilnæmt fæði. Í rauninni getur of mikil vítamínneysla undir vissum kringumstæðum valdið því að menn líði skort á öðrum næringarefnum. Hafa ber þó í huga að það sem næringarfræðingar kalla heilnæmt fæði er í rauninni ekki jafn algengt og menn vilja halda. Það að setja saman mataræði sem inniheldur nægilegt magn af vítamínum er allt annað en auðvelt. Sumir vilja því tryggja sig gegn vítamínskorti með því að borða vítamín í töfluformi.

 

6. Það er erfitt að fá nægt járn úr mataræðinu einu saman.

Rangt. Þó að það sé erfitt að laga járnskort án þess að fá það í töfluformi þá er hægt að viðhalda hæfilegu járnmagni í blóðinu með fæðinu. Bestu uppspretturnar fyrir járn eru ýmsar korntegundir, þurrkaðir ávextir, baunir, magurt kjöt, fuglar og fiskur. Samkvæmt nýlegum niðurstöðum úr rannsóknum ættu menn að fara varlega í það að borða of mikið af járni með bætiefnum eða í gegnum fæðuna þar sem það hefur verið tengt við hjartasjúkdóma.

 

7. Íþróttamaður þarf að drekka meira en 8 glös af vatni á dag.

Rétt. Þú þarft að drekka um átta glös af vatni á dag þó að þú stundir engar æfingar. Þegar þú ferð hins vegar að æfa þarftu að auka við það til þess að bæta fyrir þann vökva sem þú tapaðir á æfingunni. Margir hafa örugglega upplifað það að finna fyrir einkennum uppþornunar án þess að vita hvað væri í rauninni að gerast. Einkennin eru nefnilega oft svimi og ógleði.

 

8. Þorstatilfinningin er góður mælikvarði á það hversu mikið vatn þú þarft að drekka.

Rangt. Þorstatilfinningin segir ekki nægilega vel til um það hvað líkaminn þarfnast. Einfaldast og fljótlegast til að kanna hvort þú drekkir nægilega mikið vatn er að athuga litinn á þvaginu og hve mikið það er. Það ætti að vera ljósgult í stað þess að vera dökkgult.

 

9. Æfingar örva hungurtilfinningu.

Rétt og rangt. Kannanir sýna að hóflegar æfingar í tuttugu mínútur og upp að klukkustund hafa ekki áhrif á það hve mikið menn borða, og í rauninni minnkar matarneyslan upp að því marki. En ef æft er lengur þá auka æfingarnar matarlystina eins og búast má við en hins vegar sjá æfingarnar oftast til þess að þessum auka hitaeiningum er brennt.