Rannveig Kramer EvrópumeistariFjórir Íslendingar komust á verðlaunapall á Evrópumeistaramótinu í fitness sem fór fram í Santa Susanna á Spáni. Rúmlega 1000 keppendur frá 36 löndum kepptu á mótinu. Rannveig Kramer keppti í flokki 45 ára og eldri í fitness og vann þar gull. Hún varð einnig heildarsigurvegari í meistaraflokki þar sem hún keppti við sigurvegarann í 35 ára og eldri flokknum og sigraði sömuleiðis. Hún fer því heim hlaðin bikurum og verðlaunum enda er þetta einn stærsti sigur Íslands á þessum vettvangi. Sigurkarl Aðalsteinsson sem sömuleiðis keppti í meistaraflokki 50-60 ára í vaxtarrækt landaði silfri. Hann mætti í sínu besta formi til þessa og var í harðri baráttu við fjölmarga mjög sterka keppendur en stóð uppi með silfrið. Sigurkarl og Rannveig eru gott dæmi um það hversu góðu formi hægt er að vera í á besta aldri.

Til að toppa árangur Íslendingana hafnaði Irma Ósk Jónsdóttir í öðru sæti í unglingalflokki í fitness kvenna og fer því eins og æfingafélaginn Sigurkarl heim með silfur.

David Alexander keppti í vaxtarrækt undir 85 kg flokki og komst þar á verðlaunapall í fimmta sæti í fjórtán manna flokki sem er stórkostlegur árangur. Fyrir þá sem ekki til þekkja þarf að taka fram að Íslendingar hafa ekki komið vel út úr keppni í opnum vaxtarræktarflokkum eins og David Alexander keppti í. Afar sjaldgæft er að íslenskir vaxtarræktarmenn komist í nágrenni við verðlaunasæti í vaxtarrækt á sambærilegum mótum ef frá eru taldir meistaraflokkar þar sem þeir Sigurður Gestsson og Magnús Bess hafa náð góðum árangri. Þessi árangur David Alexanders verður því að skoðast í því samhengi. Það er stórfrétt þegar okkar bestu vaxtarræktarmenn komast í efstu sex sætin á þessum mótum.

Þau Valgeir Gauti Árnason, Gísli Örn Reynisson Schramm, Garðar Ómarsson, Þorlákur Sigurbjörn Sigurjónsson, Ólafur Þór Guðjónsson, David Nyombo Mkobi Lukonge,  Snæþór Ingi Jósepsson, Sandra Ásgrímsdóttir,  Viktor Berg og Eggert Rafn Einarsson komust ekki í úrslit á mótinu.

Þær Christel Ýr Johansen, Dóra Sif Egilsdóttir og Magnea Gunnarsdóttir kepptu allar í risastórum flokkum með um 30-43 keppendum í módelfitness og komust sömuleiðis ekki í úrslit.

Heildarúrslit eru hér – smella.

Nokkur video, fleiri væntanleg:

Smella hér!