Valdís Hallgrímsdóttir
Varstu búin að leggja mikið á þig fyrir Þrekmeistarann?
Ég er alltaf að æfa. Fyrir þetta mót gerði ég hinsvegar minna af því að æfa sjálfar greinarnar eins og ég gerði á síðasta ári. Ég er búin að hlaupa mikið og keppa í fimm keppnum síðan 1. maí. Þannig að þetta er búið að vera nokkuð erfitt.  Bætingin hjá mér núna var hálf mínúta en ég ætlaði mér að bæta tímann um eina mínútu. Frá því í fyrra hef ég verið að bæta mig í hlaupunum sem ég hef verið að keppa í en núna fannst mér Þrekmeistarinn ótrúlega erfiður.

Ætlarðu að stefna á Þrekmeistarann í haust? Ég ætla nú að hugsa málið, en mér finnst þetta rosalega gaman. Það verður alltaf erfiðara og efiðara að bæta sig. Svo fer þetta auðvitað talsvert eftir því hvernig gengur að fá stuðningsaðila við að keppa. Ég bý í Noregi og sem betur fer hefur Bakarameistarinn Suðurveri stutt mig og það munar um allt slíkt.  Hvað æfingar snertir þá get ég varla æft meira en ég geri. Núna átti ég frekar erfitt með magaæfinguna sem ég á hinsvegar yfirleitt auðvelt með að gera. Fyrstu fjórar æfingarnar eru auðveldar en erfiðið byrjar fyrir alvöru þegar komið er á hlaupabrettið. Mér finnst gaman að keppa á þessum mótum og það er góður andi á þeim. Sérstaklega er gaman að sjá margar konur vera að keppa en ég vil samt sjá enn fleiri.