Keppt verður í nýrri keppnisgrein á heimsmeistaramótinu í fitness sem haldið verður í Brno í Tékklandi í haust. Þessi nýja keppnisgrein innan fitnessgeirans er til komin vegna aukinna krafna um að fá fitnesskeppni þar sem ekki þarf að keppa í danslotu. Megináherslan er á gott líkamsform út frá fegurðarsjónarmiði. Fegurð er því ríkur áhersluþáttur í þessari keppnisgrein. Keppt verður í tveimur hæðarflokkum, upp að og með 164cm og yfir 164cm.  Keppendur koma fram í þremur lotum: 1. Forkeppni lota 1 (Bikini) 2. Forkeppni lota 2 (Sundbolur) 3. Úrslit lota 3 (Bikini) Stefnt er að því að keppa í þessari nýju keppnisgrein á Íslandsmótinu á næsta ári. Hér á landi eins og víða annarsstaðar hefur borið á að keppendur vilji keppa án þess að þurfa að keppa í danslotu. Danslotan er mjög krefjandi og eflaust þykir mörgum synd að sleppa henni, enda er hún gjarnan mjög litrík og skemmtileg á að horfa. Áfram verður keppt í henni í hefðbundnu flokkunum enda er þessi nýja keppnisgrein hrein viðbót við fitnesskeppnina eins og hún er í dag. Hægt er að lesa um reglurnar í þessari nýju keppnisgrein í greinasafninu. Áhugasamir eru beðnir um að senda tillögur að íslensku nafni á þessa keppnisgrein með því að senda tölvupóst á keppni@fitness.is