Nýjar og erfiðar keppnisgreinar ættaðar frá bresku sérsveitunum Vegna fjölda áskorana keppenda hefur verið ákveðið að breyta framkvæmd Bikarmeistaramóts IFBB í fitness sem haldið verður 16. nóvember í Austurbæjarbíói.  Til stóð að hafa hindranabrautina úti í Kaplakrika og að keppendur myndu kappklæða sig í takt við veður og vinda, en þar sem ekki hefur tekist að semja við veðurguðina og Bikarmótið hefur ávalt verið uppspretta nýrra hugmynda var sest niður og ákveðið að hrinda í framkvæmd keppnisformi sem lengi hefur verið til athugunar í staðinn fyrir hindranabrautina. Þetta var gert, ekki síst í ljósi þess að ætlunin hefur ávalt verið að Bikarmótið væri frábrugðið Íslandsmótinu. Framkvæmd Bikarmótsins verður með þeim hætti að í stað hindranabrautar verður keppt í nokkrum nýjum greinum í Austurbæjarbíói sem koma til með að reyna til hins ýtrasta á þol og þrek keppenda  mun meira en þekkst hefur áður í þessum keppnum. Samsetning greinanna er unnin í samráði við Neil Francombe sem hefur verið keppnisstjóri í Þrekmeistaranum, en hann er jafnframt þjálfari bresku sérsveita lögreglunnar í London. Keppnisgreinarnar 1.      Dýfur. Óbreytt framkvæmd. 2.      Upptog. Óbreytt framkvæmd. 3.      DYNOpressa. Notuð er DYNO vél til þess að mæla meðalátak keppenda í bekkpressuátaki. Mælt er meðalátak í 30 pressum sem gerðar eru samfellt. Concept 2 mælir sýnir hámarksátak og meðalátak í þessum 30 lyftum af mikilli nákvæmni og það er meðalátakið sem gildir.  Sökum þess að um er að ræða 30 lyftur skiptir þol ekki síður en styrkur máli. Smelltu hérna til að skoða DYNO. 4.      Kafaragrip. Breski sjóherinn notar þessa þraut sem hluta þrekprófs á köfurum en hún felst í því að lyfta sér á slá með þröngu lokuðu gripi þannig að hakan nái til að byrja með upp fyrir slánna, en tekinn er tíminn á því hversu lengi keppandinn getur haldið sjálfum sér uppi. Tíminn er stöðvaður þegar keppandinn hefur sigið niður þannig að efri hluti höfuðs nemur við stöngina.  Leyfilegt er að nota hanska eða magnesíum. 5.      Þrekhjól 2 km. Karlar hjóla 2 km á 200 vatta átaki á Technogym þrekhjóli.  Konur 1 km á 140 vatta átaki. Tíminn gildir. 6.      Róður 500 m. Karlar róa á átaki 10 í Concept 2 róðravél, konur á stillingu 6. Tíminn gildir. Þessar greinar gilda 50% í keppninni og samanburður gildir eins og áður 50%. Árangur keppenda í hverri keppnisgrein skipar þeim í sæti sem þegar á heildina er litið segir til um það í hvaða sæti keppandinn er eftir allar greinarnar.  Keppendur fá keppnisnúmer í upphafi keppninnar sem segir til um í hvaða röð þeir framkvæma greinarnar. Reynt verður að gæta þess að keppendur hvílist allir jafn mikið en greinarnar eru framkvæmdar þannig að um leið og síðasti keppandinn hefur lokið hverri grein byrjar fyrsti keppandinn strax í þeirri næstu með þeirri undantekningu á þegar keppendur hafa lokið við að hjóla á Þrekhjólinu fá þeir einungis 2 mín hvíld þar til þeir eiga að vera byrjaðir að róa. Keppendur verða því ræstir samtímis á þrekhjólinu og róðravélinni. Það verða því alltaf tveir og tveir á hjólinu og í róðravélinni. Sjá nánar dagskrá keppninnar.