Ákveðið var á fundi sem fór fram um helgina í Gautaborg að haldið yrði alþjóðlegt mót í fitness og vaxtarrækt 25. apríl í Reykjavík. Einar Guðmann sem situr í stjorn norðurlandaráðs Alþjóðasambands líkamsræktarmanna sem staddur er á „Fitnessfestivalen“ í Gautaborg sat fundinn fyrir hönd Íslands og þar var einnig ákveðin tímasetning og staðsetning fyrir næstu norðurlandamót.Næstu norðurlandamót verða sem hér segir: 2009 – Noregur 2010 – Finnland 2011 – Eistland 2012 – Svíþjóð 2013 – Damörk 2014 – Ísland Einhverjar líkur eru á að ekki verði haldið norðurlandamót í Eistlandi, en eins og kunnugt er var Eistland tekið inn í norðurlandasamband íþróttagreinarinnar vegna nálægðar og samstarfs við Finnland.
Samþykktar voru breytingar til framtíðar á flokkaskiptingu á norðurlandamótunum. Ekki verður keppt í íþróttafitness og ákveðið að ef ekki fáist 3 keppendur í einhvern flokk verði hann sameinaður við næsta flokk fyrir ofan. Samt sem áður verða veitt verðlaun fyrir þann flokk. Keppandi sem keppir t.d. í -70 kg flokki í vaxtarrækt en er settur með -80 kg flokki verður dæmdur á sviði með þeim, en fær samt sem áður verðlaun í samræmi við sína sætaröðun fyrir -70 kg flokk. Flokkarnir eru eftirfarandi: Vaxtarrækt karla: -70, -80, -90, -100, +100. Vaxtarrækt kvenna: -55, og +55. Öldungaflokkar í vaxtarrækt karla og kvenna. Classic bodybuilding karla (Fitness): -180 sm, +180 sm. Bodyfitness (Fitness) kvenna: -163 sm, +163 sm. Öldungaflokkur kvenna í fitness. Heildarsigurvegarar í Vaxtarrækt karla, fitness karla og fitness kvenna. Hvert land má bjóða fram tvo dómara og landið sem heldur mótið hefur minnst 3 dómara. Hugsanlega verður einnig boðið upp á Classic Bodybuilding fyrir konur. Keppt hefur verið í þeim flokki í Finnlandi síðan 1999 og hefur sá flokkur fengið góðar viðtökur. Næstu vikur mun ákvörðun um það hvort af því verði liggja fyrir.
Sama flokkaskipting verður á Grand Prix mótunum og á norðurlandamótunum með þremur undantekningum. Ekki verður keppt í -70 kg flokki í vaxtarrækt karla og ekki verður keppt í öldungaflokkum og einungis er einn opinn flokkur í vaxtarrækt kvenna.
Haldin verða nokkur mót á næsta ári sem hingað til hafa verið nefnd Grand Prix mót. Ákveðið var að halda eitt slíkt mót í Reykjavík 25. apríl á næsta ári. Það er tveimur vikum eftir Íslandsmótið sem fer fram um páskana á Akureyri og þar myndi ráðast hverjir keppi fyrir landsins hönd. Ræddar voru reglur fyrir vali keppenda á þessi mót og hafa löndin misjafnan hátt þar á. Eins og kunnugt er hefur fjöldi keppenda farið á mót fyrir Íslands hönd, bæði norðurlandamót, evrópumót og heimsmeistaramót. Flest landana láta niðurstöðu norðurlandamótsins ráða því hvaða keppendur fái að fara á evrópu og heimsmeistaramót. Hér heima hefur sú afstaða ráðið ferðinni að senda keppendur eftir því sem aðstæður leyfa. Óski keppendur eftir því að fá að sækja um að fara á erlend mót þarf að senda skriflega beiðni til yfirdómara alþjóðasambandsins sem er með netfangið keppni@fitness.is .