Íslandsmót Þrekmeistarans fór fram í gær í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þetta er ellefta þrekmeistaramótið sem haldið er hér á landi og að þessu sinni féllu fjögur Íslandsmet.“Hanna M. Harðardóttir bætti Íslandsmetið í flokki 39 ára og eldri um 8 sekúndur þegar hún fór á tímanum 19:05. Íslandsmeistarar í opnum einstaklingsflokkum urðu hinsvegar þau Hilmar Ólafsson og Kristjana Hildur Gunnarsdóttir. Hilmar sigraði á tímanum 17:41 en Kristjana bætti eigið Íslandsmet um 21 sek. Þrekmeistarabrautin samanstendur af 10 æfingum sem keppendur fara í gegnum í kapp við klukkuna. Eins og oft áður reyndist brautin sumum keppendum erfið en Kristjana sem æfir í Lífsstíl í Keflavík kom vel undirbúin í brautina.
Jón Hjaltason sagnfræðingur varð Íslandsmeistari í flokki karla 39 ára og eldri á tímanum 17:48 en hann háði hörkuspennandi keppni við Guðlaug B. Aðalsteinsson. Jón sigraði með einnar sekúndu betri tíma.“
Í liðakeppni kvenna sigraði liðið Boot Camp Babes á tímanum 13:56 sem er nýtt Íslandsmet. Í liðakeppni karla fór SWAT liðið á tímanum 11:51 sem er bæting á þeirra eigin Íslandsmeti.