Líkamsrækt með lóðum er ekki ný af nálinni og því má ætla að sérfræðingar hafi komið sér saman um það hvaða æfingaaðferðir henti best til þess að ná auknum vöðvastyrk.Fyrir skemmstu birtust niðurstöður sænskrar rannsóknar (Sports Medicine, 37: 225-264, 2007) sem sýndi fram á að vöðvar stækkuðu hraðast þegar æft var með þyngdum sem voru þyngri en 60% af hámarksgetu. Með hámarksgetu er átt við þá hámarksþyngd sem viðkomandi getur lyft einu sinni. Það að æfa þrisvar til fjórum sinnum í viku gaf besta árangurinn til þess að auka styrk. Þýskir vísindamenn hafa ennfremur gert rannsóknir á byrjendum í líkamsrækt með því að víxla æfingaaðferðum sem byggðust annars vegar á því að gera eina lotu af hverri æfingu og hinsvegar þrjár lotur af hverri æfingu og skipt var um æfingaálag. Vísindamönnum hefur reynst erfitt að komast að því hvaða æfingaáætlun hámarkar vöðvavöxt. Slíkt er erfiðara að mæla heldur en lotur, þyngdir og endurtekningar. Ennfremur hefur í mörgum rannsóknum reynst erfitt að heimfæra rannsóknir á fólki sem er í slöku formi yfir á fólk sem er í góðu líkamlegu formi. Í áðurnefndum rannsóknum var ljóst að það að framkvæma þrjár lotur af hverri æfingu skilaði mestum árangri í styrktaraukningu hjá byrjendum. Það að æfa af kappi skilar árangri, en sé æft með hangandi hendi verður árangurinn í samræmi við það. Eflaust augljós sannleikur sem flestir þykjast vita en ástæða er til að minna sig á endrum og eins. Heimild: Journal strength conditioning research, 21: 578-582. 2007