Með því að gera sér grein fyrir því hvernig streita (álag og kvíði) hefur áhrif á frammistöðu keppenda í fitness og vaxtarækt er hægt að finna sér leiðir til að ná stjórn á streitunni. Of mikil streita getur haft áhrif á frammistöðu íþróttamanns í keppni á tvo vegu, annars vegar veldur streita aukinni vöðvaspennu, þreytu og samhæfingarörðugleikum (coordination problems), hins vegar getur streita valdið breytingum og minnkun á athygli, einbeitingu og sjónsviði. Ef keppandi, sem er uppi á sviði í samanburði í stöðum, er með of hátt streitustig þá nær hann ekki að einbeita sér að spennu í líkamanum öllum heldur eyðir of mikilli orku í að spenna einn ákveðinn vöðva. Þannig getur hann jafnvel misst heildarspennuna í líkamanum og í kjölfarið verður líkamsstaðan skökk. Þetta gerist stundum hjá byrjendum sem eiga erfitt með að taka bak-stöðuna (back lat spread) og hafa ekki náð nægri tengingu við líkamann sinn og líðan í stöðunum. Þegar viðkomandi er undir álagi líkt og fylgir því að vera uppi á sviði fer keppandinn að herpa herðarblöðin saman í stað þess að breiða vængina út. Of lítið álag eða streita getur líka haft áhrif á frammistöðu keppanda. Hann verður of afslappaður, hefur minni áhuga og einbeitingin fer út um gluggann. Það ber þó að hafa í huga að það er eðlilegt að streita sé til staðar meðan á keppni stendur. Hæfilega mikil streita skilar keppanda betri frammistöðu, einbeitingu og athygli.

Hvað er hægt að gera til að halda hæfilegu streitustigi?

Efling sjálfstrausts er ein mikilvægasta forvörnin til að geta tekist á við mikla streitu í keppnisíþróttum. Þeir keppendur sem hafa gott sjálfstraust, trú á getu sinni til að framkvæma það sem ætlast er til af þeim í keppni og takast á við krefjandi aðstæður, upplifa minni kvíða í keppni. Þeir sem hafa gott sjálfstraust virðast einnig líta á aukna streitu sem jákvæðan þátt sem auðveldar þeim framkvæmd íþróttarinnar en síður sem íþyngjandi eða hamlandi þátt. Til að vinna að auknu sjálfstrausti er mælt með að æfa í uppbyggilegu umhverfi með hvetjandi og jákvæðum æfingarfélaga eða þjálfara. Einnig skiptir máli að temja sér jákvætt viðhorf til mistaka og jafnvel taps. Stundum þegar keppendur gera mistök þá upplifa þeir mikla reiði og verða oft óhóflega æstir og áhyggjufullir. Þessi vanlíðan leiðir til síðri athygli, aukinnar vöðvaspennu sem dregur síðan enn fremur úr frammistöðu keppandans. Þegar horft er á mistök sem tækifæri til þess að bæta sig og þroskast áfram innan íþróttarinnar (bæta tækni eða framkvæmd æfinga) þá minnkar einnig hræðsla við mistök.

Annar mikilvægur þáttur til að minnka streitu er að draga úr óöryggi og fækka óvissuþáttum. Það er meðal annars gert með því að gera sér grein fyrir hverju maður hefur stjórn á. Keppandi í fitness eða vaxtarrækt getur haft stjórn á eigin hugsunum, líðan, sjálfstrausti, einbeitingu, hegðun og tali svo fátt eitt sé nefnt. Sami keppandi getur aftur á móti ekki haft stjórn á skoðunum annarra né hugsunum þeirra, útliti eða formi annarra keppanda. Það minnkar streitu keppandans ef hann tekur stjórn þar sem hann getur en sleppir takinu af því sem er ekki hans að stjórna.

Eftirlíking af keppnisdeginum (simulation training) getur verið hjálpleg aðferð til að minnka streitu á keppnisdeginum sjálfum. Keppandi fer þá í gegnum stöðurnar sínar á sviðinu eins og um sjálfan keppnisdaginn sé að ræða.

Það gagnast öllum að skoða vel eigið streitustig jafnt á undirbúningstímabilinu sem og á keppnisdeginum með það í huga að bæta eigin frammistöðu og ná hámarks árangri. Að lokum má benda á að aðstoð til að minnka streitu og kvíða í íþróttum má m.a fá hjá sálfræðingum og öðrum fagaðilum.

Texti: Anna Sigurðardóttir, Cand.psych sálfræðinemi við Háskólann í Árósum.

(Weinberg, R. S., & Gould, D. (2011). Foundations of Sport and Exercise Psychology. Champaign, IL: Human Kinetics.)