Margt jákvætt hefur verið skrifað um áfengisneyslu. Af og til birtast greinar sem hugga rauðvínssötrara með því að hollt sé fyrir hjartað að drekka eitt og eitt rauðvíns- eða hvítvínsglas. Auðvelt er að ímynda sér að þessar jákvæðu fréttir af áfengisneyslu rati fyrst og fremst í fjölmiðla vegna þess að afar sjaldgæft er að hægt sé að segja eitthvað jætt um áfengi – þar af leiðandi er fréttnæmt að eitthvað gott komi frá þeim forarpytti sem áfengi getur verið.

Hófleg áfengisneysla er talin hafa í för með sér minni áhættu gagnvart hjartasjúkdómum en hitt er annað mál að áfengi inniheldur sjö hitaeiningar í gramminu. Kolvetni innihalda fjórar hitaeiningar og fita níu. Það má því setja áfengi mitt á milli kolvetna og fitu í orku.

Stór evrópsk rannsókn sýnir fram á að karlmenn sem neyta áfengis með reglubundnum hætti yfir ævina þjást frekar af offitu og magafitu en aðrir.

Svo undarlega vill til að ekki reyndist samhengi á milli offitu kvenna og áfengisneyslu, en hinsvegar var hærra hlutfall kvennanna sem neyttu áfengis með óvenju mikla magafitu. Bjór lagði meira af mörkum til offitu en vín. Líklega er skýringuna á því að finna í neysluvenjunum vegna þess að ef bjór er drukkinn er um meira magn að ræða. Einn bjór kallar á annan.

Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að hófleg áfengisdrykkja tengist langlífi og góðri heilsu. Það erfiða í dæminu er að það sem er hóflegt fyrir einn er hugsanlega óhóf annars. Það er ekki til neitt sem heitir ráðlagður dagsskammtur af áfengi eins og hægt er að segja um vítamínin okkar.

(European Journal of Clinical Nutrition 65: 1079-1087, 2011)