Hnébeygjan er ein besta æfingin til þess að byggja upp vöðvamassa í fótum. Hún er reyndar ein besta alhliða æfing sem hægt er að gera, en miklu skiptir að hún sé gerð rétt. Ef hún er ekki gerð rétt getur hún valdið meiðslum á hnakka og baki. Lykilatriði er að halda bakinu beinu þegar sigið er niður.Byrjendur eiga yfirleitt erfitt með að komast neðarlega með beint bak. Fyrir þá skiptir mestu að gefa sér tíma til þess að liðkast. Eftir nokkrar vikur liðkast neðra bakið og nárinn og smátt og smátt er hægt að taka dýpri beygjur án þess að bakið sé farið að bogna. Miklu skiptir að halda réttri höfuðstöðu í hnébeygju. Ef horft er niður eykst álagið um of á mjaðmasvæðið og ef höfuðið er reigt of ofarlega eykst álagið um of á bakið. Réttast er að halda beinni og eðlilegri höfuðstöðu til þess að mynda hvergi þvingun. Til þess að bakið nái að haldast í réttri stöðu þarf að leyfa fótunum að vísa ögn út. Þannig er hægt að láta sig síga niður í a.m.k. 90 gráður án þess að þvinga bak eða háls óeðlilega. Mjög djúpar beygjur eru ekki fyrir hvern sem er og byrjendur ættu að einskorða sig við að taka einungis 90 gráðu beygjur. Dýpri beygjur en það virka vissulega vel á framanverð lærin og eru erfiðari, en mörgum hættir til að mynda of mikið álag á hnén sé það gert. Journal of Strength Conditioning Research, 20:145-150, 2006