Eitt af því fyrsta sem byrjandinn þarf að læra þegar hann mætir í ræktina og fer að taka á lóðum er að anda rétt. Meginreglan er sú að anda frá sér jafnt og þétt þegar lyft er, en anda að sér þegar næsta endurtekning er undirbúin. Þessi aðferð er notuð vegna þess að þrýstingurinn í brjóstholinu dregur úr blóðflæði til hjartans sem aftur veldur hraðari hjartslætti og meira álagi á hjartað. Rannsókn á óþjálfuðum nemendum sýndi nýlega fram á að öndunartæknin skipti engu fyrir púlshraða eða blóðþrýsting. Nemendurnir tóku eitt sett og 10 endurtekningar í bekkpressu og fótapressu, annað hvort með því að halda í sér andanum eða anda frá sér í lyftunni eins og flestir gera. Telja verður líklegt að öðru máli gegni um þá sem eru í góðri þjálfun eða vaxtarræktarmenn. Ef andanum er haldið inni þegar átakið er mest er líklegt að bæði hjartsláttur og blóðþrýstingur verði meiri en annars.

(Journal Strength and Conditioning Research, 24: 2179-2183, 2010)