Flestar magrar mjólkurafurðir eru prótín- og kalkríkar. Óþarfi er að nefna mikilvægi kalks vegna hættu á beinþynningu, en við bætist að það virðist draga úr matarlyst og halda blóðsykri stöðugum.

Sýnt hefur verið fram á að með því að borða þrjár máltíðir á dag þar sem magrar mjólkurafurðir koma við sögu, tekst fólki frekar að viðhalda þeirri þyngd sem það hefur náð að léttast um. Í rannsókn sem Michael Zemel við Háskólann í Tennessee í Bandaríkjunum gerði voru þátttakendur í þrjá mánuði á hitaeiningalitlu mataræði til þess að léttast, en næstu sex mánuði á mataræði sem ætlað var að viðhalda líkamsþyngd. Þátttakendur sem borðuðu mest af mjólkurvörum gátu borðað meira og þeir brenndu meira af fitu, heldur en þeir sem borðuðu einungis eina eða færri máltíðir á dag með mjólkurvörum á viðhaldstímabilinu. Mjólkurafurðir eru kalk- og prótínríkar og innihalda auk þess mikið af D-vítamíni og eru því álitnar mikilvægar sem hluti af góðu mataræði.
 
(Nutrition and Metabolism, 5:28, vefútgáfa 24. október, 2008)