Eftir að hafa lagt mikið á sig í ræktinni og loksins náð að byggja upp vöðvamassa er fúlt að hylja þá með fitu. Formúlan fyrir því að halda fitunni í skefjum er í sjálfu sér einföld, en skiptist í þrjá meginþætti. Mataræði, þolþjálfun og styrktarþjálfun.

Ef eitthvað af þessum þremur atriðum er ekki í lagi er líklegt að þú sért ekki að sjá það sem þú vilt sjá í speglinum. Einbeittu þér að því að borða heppilegan mat með tilliti til fjölda hitaeininga og gefðu þér tíma í þolþjálfun með og á milli styrktaræfingana. Með auknum vöðvamassa ertu að auka heildarbrennsluna yfir daginn en ekki gleyma því að auðvelt er að hylja vöðvamassa ef mataræðið eða  brennsluæfingarnar gleymast um stund. Rétt eins og segja má um allan árangur sem næst í ræktinni, gerist ekkert á einni nóttu. Settu þér raunhæf markmið og gættu þess að ekkert af þessum þremur atriðum sem nefnd eru hér á undan gleymist og þá er eins víst að þú verðir með sixpakk í speglinum í náinni framtíð.