Laugardaginn 20. nóvember verður haldið Bikarmót Alþjóðasambands líkamsræktarmanna í Háskólabíói. Keppt verður í fitnessflokkum karla og kvenna, módelfitness og vaxtarrækt.

Ennfremur verður keppt í unglingaflokkum í fitnessflokki kvenna og í módelfitness. Mótið fer að óbreyttu fram með hefðbundnu sniði, en þó ber að segja frá því að hugsanlegt er að mótið verði haldið í tengslum við viðburð sem nefnist Icelandic Fitness and Health Expo sem ætlunin er að fari fram sömu helgi.

Hugmyndin með þeim viðburði er að gera tilraun til að sameina í eina helgi ýmsar keppnisgreinar, vörusýningar, fyrirlestra og fleira sem varða líkamsrækt og heilsu. Skipuleggjendur sýningarinnar hafa lýst yfir áhuga á að úrslitin á laugardagskvöldinu í Háskólabíói verði einskonar hápunktur helgarinnar og að forkeppni verði haldin á sýningarsvæðinu í Mosfellsbæ á föstudeginum og hafa forsvarsmenn Alþjóðasambandsins tekið vel í hugmyndina. Það er því hugsanlegt að Bikarmótið verði hluti dagskrár Icelandic Fitness and Health Expo. Hvernig sem það fer mega keppendur fara að huga að undirbúningi fyrir mót 20. Nóvember.