emma marie slade 072
Jóhann Norðfjörð hefur tekið að sér erlenda keppendur í þjálfun og Emma Slade kom nýverið til landsins til þess að stunda þjálfun hjá honum.

Gengi íslenskra keppenda hefur lengi vakið athygli á erlendri grundu, en undanfarin misseri hefur velgegni íslenskrar þjálfunar einnig vakið mikla eftirtekt erlendis.  Jóhann Norðfjörð alþjóðadómari og einn eigenda þjálfunarfyrirtækisins Fitness Akademíunnar hefur að undanförnu tekið að sér þjálfun keppenda víðsvegar um Evrópu í kjölfar þess að árangur íslenskra keppenda hefur vakið mikla athygli.
Emma Marie Slade er breskur þjálfari og fitnesskeppandi sem er núna stödd á Íslandi í því skyni að sækja einkaþjálfun hjá Jóhanni og undirbúa sig fyrir breska meistaramótið sem haldið verður í apríl næstkomandi.  Fitnessfréttir spurðu hana hvernig þetta hafi komið til.
„Ég hef keppt í nokkur ár í bikini-fitnessi, unnið með fjölmörgum þjálfurum í Bretlandi án þess að ná þeim markmiðum sem ég hef einsett mér. Ég kenni sjálf þjálfurum og þekki því gildi þess að hafa einn sjálf. Ég fór því að hugsa minn gang og líta í kringum mig þegar ég áttaði mig á því að enginn hinna bresku keppnisþjálfara var að koma keppendum sínum í fyrstu sætin á alþjóðavettvangi. Það lá því beinast við að hugsa út fyrir kassann og leita annarra leiða.  Ég hitti Jóhann Norðfjörð á Arnold Classic Europe í Madrid á síðasta ári og kynnti mér í kjölfarið ferilinn hans og orðspor ásamt því að skoða þá keppendur sem hann hefur þjálfað og sá að þarna gæti ég fundið það sem mig vantaði.  Komast frá mínu vanalega umhverfi í London, einangra mig ef svo má segja til að geta betur einbeitt mér að því sem þyrfti að gera hjá þjálfara sem ég treysti.  Ég er yfir mig ánægð að hafa fengið tækifæri til að koma hingað til Íslands og í þjálfun hjá Jóhanni og öðlast reynslu og fá að læra af honum aðferðarfræði sem ég tel að eigi eftir að gagnast bæði mér og fitnessþjálfun heima til framtíðar.  Með mér í för er kvikmyndagerðarmaður sem mun fylgjast með undirbúningnum hér á Íslandi í upphafi undirbúningsins, en hann mun síðan koma aftur til Íslands í lok tímabilsins og fylgjast með þeim hluta einnig.“