Sagt er frá því á vefsíðu Flex tímaritsins, flexonline.com að Ingrid Romero sem varð heildarsigurvegari í módelfitness á síðasta ári á Arnold Classic að hún ætli að snúa aftur til keppni hjá IFBB/NPC (innanlandsmót IFBB í Bandaríkjunum eru haldin undir merkjum NPC). Skömmu eftir sigurinn á Arnold Classic ákvað hún að hætta að keppa hjá IFBB í þeirri trú að grasið væri grænna hjá WBFF eins og hún orðar það. Flexonline.com tók viðtal við hana og forvitnaðist um ástæður þess að hún hefði ákveðið að snúa aftur til IFBB/NPC.

„Þegar ég hafði sigrað á Arnold Classic kom Paul Dillet, framkvæmdastjóri WBFF að máli við mig. Til þess að fá mig til liðs við sig lofaði hann mér sex stafa samningi hjá bætiefnafyrirtæki, forsíðum margra virtra tímarita, hlutverki í raunveruleikaþáttum í sjónvarpi með frægum leikurum og margt fleira. Á þessum tíma var ég einungis búin að vera viðriðin þennan geira í hálft ár og var ákaflega auðtrúa. Ég hélt að þetta væri svarið við fjárhagsvandræðum mínum þegar mér voru gefin þessi loforð. Mig grunaði ekki á þeirri stundu að ég væri að gera risa mistök á mínum unga ferli. Fljótlega gerði ég mér grein fyrir að Paul Dillet og WBFF væru að selja keppendum drauma til þess eins að fá þá til að ganga til liðs við samtökin og að um leið og því takmarki væri náð myndu þeir ekki efna eitt einasta af loforðum sínum. Ég vildi segja frá þessu opinberlega til þess að láta aðra keppendur sem eru í svipuðum sporum og ég vita að WBFF er ekki svarið. Paul Dillet blekkir fólk og notfærir sér þá sem eru auðtrúa og vita ekkert um keppnisgeirann.“

„Ég vil formlega biðja NPC og alla aðra sem ég gæti hafa móðgað afsökunar vegna þessara mistaka minna. Sömuleiðis vil ég þakka NPC fyrir að gefa mér tækifæri til að hefja keppnisferil í módelfitness. Ég er afar leið yfir eigin ákvarðanatöku varðandi þetta mál og get ekki annað en vonað að ég fái aftur inngöngu í IFBB/NPC.“

Nokkrir íslenskir keppendur gengu til liðs við WBFF á síðasta ári þegar haldin var fyrsta keppnin á þeirra vegum í Evrópu hér á landi undir heitinu Evrópumót þrátt fyrir að engir keppendur væru frá Evrópu nema íslendingar. Sumum íslensku keppendunum hjá WBFF var lofað eitt og annað af Paul Dillet sem kom sjálfur hingað til lands en hann lagði sig allan fram um að sannfæra keppendur IFBB um að grasið væri grænna hjá WBFF. Boð um forsíður erlendra tímarita og heimsfrægð kom þar við sögu.  Engu að síður hafa sumir íslensku keppendana afþakkað svonefnt ProCard atvinnumannakort og hætt við að keppa hjá WBFF.  Ekki endilega vegna svikinna loforða sem reyndi aldrei á, heldur kannski frekar vegna þess að þeir hafa áttað sig á muninum á IFBB og WBFF. Fjöldi íslenskra keppenda með litla keppnisreynslu fengu atvinnumannakortið hjá WBFF án fyrirhafnar.

Yfirgnæfandi meirihluti allra stórmóta sem haldin eru í heiminum í dag eru á vegum IFBB.  Reglur, keppnisfyrirkomulag og dómforsendur eru afar ólíkar hjá þessum tveimur samböndum. Afar óheppilegt er því að bera saman IFBB og WBFF þar sem haldin eru um 2500 mót á vegum IFBB á ári í heiminum en mótin á vegum WBFF eru teljandi á fingrum og eru helst bundin við Kanada.  Á litla Íslandi er hinsvegar auðvelt með gaspri í fjölmiðlum að láta lítið líta út fyrir að vera stórast í heimi.