Hvor ætli sé betri í rúminu, sá sem er sterkur, fimur og hleypur eins og vindurinn eða sá sem hangir í sófanum heima hjá sér og safnar aukakílóum og blæs eins og hvalur ef hann þarf að fara út með ruslið? Það þarf ef til vill engan vísindamann til þess að staðfesta hvor það er, en engu að síður eru þeir búnir að rannsaka málið til þess að hafa það á hreinu. Dr. John McKay er vísindamaður sem starfar að rannsókn sem nefnist öldrun karlmanna í Massachusetts og hann hefur bent á að hnignandi farsæld karlmanna í rúminu á sér frekar rætur í kyrrsetulífi en öldrun. Rannsóknin sýndi fram á að 10% karlmanna á aldrinum 40-70 ára eru algerlega getulausir og 50% eiga við umtalsverð reisnarvandamál að stríða. Reglulegar æfingar eru besta leiðin til þess að berjast gegn getuleysi, þannig að ef lýsingin á manninum í sófanum á við um þig, skaltu drífa þig á æfingu. 

(Lexington Herald-Leader, 6 júní, 2000)