Það er óbifanleg staðreynd að steranotkun hefur verið vandamál í gegnum árin, ekki einungis hjá íþróttamönnum, heldur einnig hjá fólki sem stundar æfingar með það að markmiði að líta vel út. Lengi vel var álitið að það væru eingöngu kraftlyftingamenn og vaxtarræktarmenn sem notuðu stera, en löngu er orðið ljóst að varla er til sú íþróttagrein þar sem steranotkun kemur ekki við sögu.

Allar íþróttagreinar sekar

Steranotkun hefur verið vandamál í gegnum árin, ekki einungis hjá íþróttamönnum, heldur einnig hjá fólki sem stundar æfingar með það að markmiði að líta vel út. Lengi vel var álitið að það væru eingöngu kraftlyftingamenn og vaxtarræktarmenn sem notuðu stera, en löngu er orðið ljóst að varla er til sú íþróttagrein þar sem steranotkun kemur ekki við sögu. Umræða um aukaverkanir virðist ekki hafa neitt að segja gagnvart því að draga úr notkun stera þó aukaverkanirnar séu oft á tíðum mjög alvarlegar.

Aukaverkanir

Meðal aukaverkana má nefna svefntruflanir, þunglyndi, persónuleikabreytingar, aukinn hárvöxt, húðvandamál, dýpkandi rödd og svo ekki sé minnst á alvarleg áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma, æðakölkun og krabbamein. Þetta eru þó einungis hluti þeirra fylgikvilla sem rekja má til steranotkunar.

Skítsama um aukaverkanir

Það undarlega er að flestir sem nota stera hafa fengið allar þær viðvaranir sem hægt er að flagga og vita af aukaverkununum. Hvers vegna nota menn þá stera? Þessu er erfitt að svara. Margar afreksíþróttir eru þess eðlis að mun fleiri eiga möguleika á að ná tilskyldum árangri með notkun stera. Þrýstingur á keppendur verður því meiri á að gera allt sem hægt er til að ná meiri árangri. Því hefur lengi vel verið haldið fram af ýmsum læknum að sterar hafi ekki þau áhrif sem menn sækjast eftir og menn séu því að eltast við vindinn í þeim efnum. Um það skal ekki dæmt hér en bent á að margir af toppíþróttamönnum heimsins í nánast öllum íþróttagreinum hafa og eru að falla á lyfjaprófum og af einhverri ástæðu hafa þeir hvata til að nota þessi efni. Oft eru gífurlegir fjármunir í húfi sem kann að vera ein skýringin.

Almenningur tilbúinn til að fórna heilsu fyrir ímyndað útlit

Meðal almennings er notkun á sterum algeng og flestar kannanir sýna að það eru fleiri meðal almennings sem nota stera heldur en úr röðum keppnisíþróttafólks. Tilgangur almennings með því að taka stera virðist vera að menn eru tilbúnir að fórna heilsu fyrir útlit. Kannanir hafa sýnt að notkun á HGH (Human Growth Hormone) fer vaxandi meðal ríka og fræga fólksins í Bandaríkjunum til þess að viðhalda æskunni. Því má ekki gleyma að sterar eru ekki eingöngu til bölvunar séu þeir notaðir í þeim tilgangi sem þeir eru ætlaðir og í réttu magni. Það er hinsvegar ekki hægt að horfa framhjá því að ef heilbrigður maður tekur stera í einhverju magni er hann að hrófla við náttúrulegri hormónaframleiðslu líkamans og raska því jafnvægi sem ríkir í líkamanum. Í kjölfarið koma aukaverkanir.

Steranotkun á undanhaldi?

Það eina jákvæða sem segja má um steranotkun í dag er að hún virðist vera á undanhaldi.Skýringuna er hugsanlega að finna í þeirri þróun sem hefur orðið í bætiefnum undanfarin ár. Síðan lögleg bætiefni komu á markaðinn sem sannað er að virka á styrktar- og vöðvauppbyggingu hefur þörfin fyrir stera farið minnkandi. Það má því færa rök fyrir því að sú flóðbylgja bætiefna sem farið hefur yfir markaðinn hafi haft jákvæð áhrif í þá átt að menn eiga annan valkost heldur en stera – og hann er án aukaverkana.