madurborda_3794-x-2592

Undanfarna tæpa tvo áratugi höfum við hjá Fitnessfréttum skrifað um insúlínviðnám. Undanfarið hefur mátt sjá mikla aukningu í skrifum annarra fjölmiðla um þetta vandamál, hugsanlega vegna útbreiddari skilnings á því hvað insúlínviðnám er og þeirrar staðreyndar að menn eru að átta sig betur á þeim miklu áhrifum sem insúlínviðnám hefur á holdafar og heilbrigði. Til að skilja hvers vegna svo er þurfa menn að skilja hvað insúlínviðnám er.

Insúlínviðnám er stundum nefnt insúlínóþol þó hér á bæ hafi endingin – viðnám verið meira notuð enda lýsir hún ef til vill betur vandamálinu. Orðið er þýðing á „insuling resistance“ og vísar til minni næmni frumna fyrir insúlíni. Insúlín er hormón sem leikur stórt hlutverk í sykurefnaskiptum en insúlín er framleitt í brisinu. Til þess að skilja sykurefnaskipti líkamans er grundvallaratriði að átta sig á að þegar við borðum byrjar meltingin á að brjóta fæðuna niður í smærri einingar. Sykurinn brotnar niður í þrúgusykur (glúkósa) og fer þannig út í blóðrásina. Sykurinn streymir um blóðrásina en til þess að líkaminn geti nýtt hann sem orku þarf hann að komast inn í vöðvafrumur og þá þarf að vera insúlín í blóðrásinni vegna þess að insúlínið er einskonar lykill að frumunum fyrir sykurinn.  Á frumuhimnunni eru viðtakar sem hleypa sykrinum inn þegar insúlín er til staðar.

Insúlínviðnám vísar til tregðu þessara viðtaka á frumunni til að hleypa sykri inn. Insúlínið hættir þannig að gegna hlutverki sínu og ýmsar raskanir verða á efnaskiptum líkamans, bæði sykur- fitu- og prótínefnaskiptum.

Þarna er komin ástæða þess að insúlínviðnám er að verða eitt umtalaðasta heilbrigðisvandamálið í dag. Þarna er líka komin rót þess að menn hafa horn í síðu ótæplegrar sykurneyslu. Gegndarlaust ofát er ein rót vandans vegna þess að í hvert skipti sem sykur er í fæðunni þarf briskirtillinn að framleiða insúlín. Stöðugt át og millimál leika hér stórt hlutverk með hjálp hreyfingaleysis.

Álagið á brisið eykst vegna þess að viðbrögð líkamans við insúlínviðnáminu er að framleiða meira insúlín. Þegar til lengri tíma er litið þolir briskirtillinn ekki álagið og skert sykuróþol eða sykursýki er niðurstaðan. Í kjölfarið er hætta á of háum blóðþrýstingi og hjarta- og kransæðasjúkdómum. Þarna er líka komin ástæða þess að næringarfræðingar horfa ekki lengur bara til mettuðu fitunnar og kólesteróls sem orsök hjartasjúkdóma – sykurinn kemur ekki síður við sögu.

Það sem helst veldur insúlínviðnámi eru ekki bara erfðir, heldur einnig ruslfæði, hreyfingaleysi, offita og reykingar. Mikil fita á magasvæðinu er sérlega varasöm og það að fitna er því beinlínis hættulegt.

Í því sambandi er vert að hafa í huga að rugla ekki saman umburðarlyndi gagnvart fitu út frá útlitssjónarmiði og heilbrigðissjónarmiði. Það er vissulega vel meint að vilja ekki tala fyrir fitufordómum en út frá heilbrigðissjónarmiðum er engum greiði gerður að þegja um þær alvarlegu afleiðingar sem offita hefur.

Til þess að berjast gegn insúlínviðnámi er eðlilegast að losna við aukakílóin, stunda líkamsrækt og reglulega hreyfingu. Nákvæmlega það sem Fitnessfréttir hafa boðað nú í bráðum tvo áratugi.
(mbl.is 9. nóvember 2002 vefútgáfa / Vísindavefurinn 12. apríl 2016)