Fæðutegundir sem hafa hátt glýsemíugildi hækka frekar blóðsykur heldur en fæðutegundir með lágt glýsemíugildi. Fæðutegundir sem innihalda kolvetni eru flokkaðar niður eftir því hversu fljótt þær hækka blóðsykur.Þessi hraði er gefinn upp í svokölluðu glýsemíugildi sem miðast við að einfaldur sykur eins og þrúgusykur sé með hæsta mögulega glýsemíugildið sem er 100 en aðrar fæðutegundir með lægra gildi. 70-100 = hátt gildi 56-69 = meðal gildi < 55 = lágt gildi Næringarfræðingar veita þessu glýsemíugildi sífellt meiri athygli því ekki eru öll kolvetni sköpuð eins og þau gjarnan flokkuð niður eftir því hvert glýsemíugildið er. Hallast flestar rannsóknir að því að fæðutegundir með hátt glýsemíugildi séu ekki jafn heppilegar og þær sem hafa lágt glýsemíugildi. Borði menn fæðutegundir með hátt glýsemíugildi hækkar blóðsykurinn hratt og mikið sem hefur þann ókost að hann fellur líka hratt. Ókosturinn við það er að þegar það gerist verður viðkomandi banhungraður og étur í slíku ástandi það sem fyrir verður. Þannig hafa margir megrunarkúrar endað. Borði menn hinsvegar fæðutegundir með lágt glýsemíugldi hækkar blóðsykurinn jafnt og þétt og fellur þannig líka. Aukast þannig líkurnar á að viðkomandi haldi andlegu jafnvægi og verði ekki það hungraður að hann glati sjálfstjórninni og borði óheppilegar fæðutegundir. Það að forðast fæðutegundir með hátt glýsemíugildi er því talið mikilvægt til þess að forðast offitu, hjartasjúkdóma, hjartaáfall og jafnvel krabbamein. Af þessum sökum hafa vísindamenn því rannsakað ýmsa áhrifaþætti á blóðsykurinn og nú síðast virðist hófleg víndrykkja með máltíð hafa þau áhrif að lækka blóðsykur eftir máltíð um 16-37%. En vín er ekki allt skapað eins. Hvítvín virðist hafa haft mest áhrif en þar á eftir gin og síðan bjór samkvæmt Áströlskum rannsóknum. Mikið hefur verið rætt og ritað um jákvæð áhrif hóflegrar víndrykkju á heilbrigði. Ekki hefur verið bent á nákvæma orsök fyrir þessum jákvæðu áhrifum fram til þessa en setja verður spurningamerki við það hvort hér sé fundin skýringin. Hugsanlega er skýringin lækkunaráhrif víns á blóðsykur. Ekki ólíklegt. Heimild: Journal Clinical Nutrition, 85: 1545-1551, 2007