fridge with foodManneldisráð hefur verið að kynna niðurstöður úr landskönnun á mataræði Íslendinga sem birtar eru í nýrri og ítarlegri skýrslu, sem gefin er út af Lýðheilsustöð. Þar er m.a. fjallað um þær miklu breytingar sem orðið hafa á mataræði hér á landi síðustu 12 árin, eða frá því síðasta landskönnun var gerð. Eins er þar gerð grein fyrir mismunandi fæðuvenjum og lífsháttum kynjanna og ólíkra aldurshópa.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í samantekt fremst í skýrslunni. Þar kemur fram að mataræðið hefur að mörgu leyti færst í hollustuátt: Hörð fita hefur minnkað og grænmeti og ávextir aukist í daglegu fæði fólks. Dæmi um neikvæða þróun er hins vegar gífurleg sykur- og gosdrykkjaneysla, einkum hjá ungu fólki, og minnkandi fiskneysla. Rannsóknin sýnir að þessi mikli sykur hefur marktæk og afgerandi áhrif á hollustu fæðunnar hjá ungu fólki, því meiri sem sykurinn er, því fábreyttara er fæði þeirra.

Ranghugmyndir um æskilega líkamsþyngd

Ofneysla og hreyfingarleysi eru hins vegar þau atriði tengd mataræði sem helst ógna heilsu landsmanna nú um stundir. Offita og ofþyngd verða sífellt algengari í flestum aldurshópum. Borið saman við 1990 er aukningin mest í yngsta hóp karla þar sem nærri þrefalt fleiri flokkast nú yfir kjörþyngd.

Ranghugmyndir um hvað teljist eðlileg líkamsþyngd eru líka áberandi, ekki síst hjá ungum konum, sem gjarnan sækjast eftir að vera enn grennri, jafnvel þótt þær séu í kjörþyngd.

Heilsusamlegt útlit er greinilega ekki helsta fyrirmynd eða markmið margra kvenna því fjórða hver kona sem er í kjörþyngd er ósátt við eigin líkamsþyngd og vill vera grennri. Hjá körlum er þessu öfugt farið, þeir eru oftar sáttir, jafnvel þótt þeir teljist of þungir og nánast annar hver karl í yfirþyngd hefur ekki löngun til að léttast. Konur fara líka frekar í megrun en karlar. Þriðja hver kona undir fertugu reyndi að grennast eða fór í megrun á árinu sem könnunin fór fram, en innan við fimmti hver karl.

Fleiri karlar en konur eru hins vegar of þungir og hjá körlunum er sterkt samband milli hreyfingar og líkamsþyngdar. Þeir karlar sem hreyfa sig reglulega eru grennri en hinir sem hreyfa sig minna og offita er sjaldgæf í þeirra hópi. Fituneysla karla er einnig tengd líkamsþyngd. Þeir karlar sem borða hæfilega fitu, í samræmi við ráðleggingar, eru alla jafna grennri en hinir sem borða feitara fæði. Kolvetnaneysla er hins vegar heldur minni hjá þeim sem eru of þungir. Sömu niðurstöður fást ef þeir sem segjast vera í megrun eru ekki teknir með í útreikningunum. Hreyfingarleysi og fituríkt fæði eru því þeir þættir sem helst tengjast ofþyngd samkvæmt rannsókninni.

Nýjar ráðleggingar um mataræði

Í skýrslunni eru birtar nýjar ráðleggingar manneldisráðs um mataræði og næringarefni. Ráðleggingarnar eru endurskoðuð útgáfa fyrri manneldismarkmiða, þar sem tekið er mið af nýjum vísindarannsóknum á sviði næringar og heilsu og niðurstöðum könnunarinnar á mataræði Íslendinga. Breytingar frá fyrri ráðleggingum felast því að miklu leyti í framsetningu og áherslum frekar en kúvendingum á því hvað teljist heilsusamlegt fæði. Rétt eins og fyrr er mælt með notkun á olíu og mjúkri fitu í stað harðrar fitu og hvatt til aukinnar neyslu á grænmeti, ávöxtum, fiski, mögrum mjólkurvörum og grófu korni. Salt, sykur, gosdrykkir og sætindi eru tekin fyrir sérstaklega og hvatt til hófsemi í notkun þeirra.

Hér er því greinilega engin bylting á ferðinni. Nýjungarnar eru aðallega þær, að enn meiri áhersla er á grænmeti, ávexti og fisk en áður, og eins er ráðleggingum um fitu breytt, þannig að nú er mælt með enn frekari hófsemi í notkun á harðri fitu en áður en hins vegar lögð áhersla á mjúka fitu úr olíum þess í stað. Einnig er í fyrsta sinn fjallað um gildi hreyfingar í næringarráðleggingunum og mælt með daglegri hreyfingu í 45-60 mínútur á dag. Ýmsum óar líklega við svo mikilli hreyfingu dag hvern, en þá verður að hafa í huga að hér er ekki bara verið að ræða um stranga líkamsþjálfun, leikfimi eða aðra heilsurækt, heldur einnig alla meðalröska hreyfingu yfir daginn, til dæmis göngu. Hreyfingin þarf heldur ekki að vera samfelld í 45 mínútur á hverjum degi heldur getur verið um að ræða nokkur styttri tímabil, t.d. göngutúr í hádegi og sundferð síðdegis. Dagleg hreyfing hefur margvíslegt gildi, bæði fyrir líkamlega og andlega velferð, og ásamt hollu mataræði er hún lykilatriði ef ætlunin er að sporna við aukinni offitu í framtíðinni.