Það er ekki nóg með að konum sem reykja virðist stafa meiri hætta af hjartasjúkdómum en öðrum. Lungnakrabbamein er í sífelldri aukningu meðal kvenna.(USA) Ástæðan er enn og aftur reykingarnar. Lungnakrabbamein veldur dauða miðaldra, sem og eldri kvenna vegna vana sem þær áunnu sér áratugum áður, þegar þekking á áhrifum reykinga var tiltölulega óþekkt. Hins vegar ættu ungar konur í dag að vita betur. Einhverra hluta vegna virðast ungir menn stunda reykingar minna heldur en kvenþjóðin. Reykingar eru taldar orsök um 85% af lungnakrabba bæði hjá konum og körlum. Það eru hins vegar ýmsar röksemdir sem benda til þess að konur eigi erfiðara með að hætta að reykja heldur en karlmenn. Ástæðan fyrir því gæti verið sú að konurnar verða oft hræddar um að þær fitni ef þær hætti að reykja eða taki upp einhverja aðra siði sem ekki geta talist betri. Eða það sem er verra er að þær hafa ekki nægjanlegt sjálfstraust til þess að leggja í að hætta. Þetta eru allt saman sálfræðilegar ástæður svo engin skal halda því fram að ekki sé hægt að sigrast á þeim.  Það gætu þó verið líkamlegar eða erfðafræðilegar ástæður fyrir þessum erfiðleikum.
Eitt er það sem allar reykinga konur ættu að vita um lungnakrabba, og það er að hann er ólíkur brjóstakrabbameini að því leiti að hann er næstum því alltaf banvænn. Lungnakrabbi er svo undirförull sjúkdómur að yfirleitt koma engin einkenni (brjóstverkir, stöðugur hósti, létting) fram fyrr en það er orðin lítil von um lækningu. Þó að komið sé auga á einkenni lungnakrabba með myndatöku er hann yfirleitt kominn á það stig að lítið sem ekkert er hægt að gera.  Það er því greinilegt að konur sem og karlar hafa góða ástæðu til þess að hætta að reykja.