Eftir miklar þreifingar geta læknar yfirleitt komist að orsök ofnæmis, hvort sem það er vegna frjókorna, fisks eða kattarhára. En í sjúkdómum eins og astma og ristilbólgu virðast ofnæmisviðbrögð oft eiga sér andlegar rætur. Þeir geta blossað upp án nokkurrar sjáanlegrar líkamlegrar ástæðu. Kannski fyrir mikilvægt próf eða eftir rifrildi við yfirmanninn.

Rannsókn sem gerð var í Kanada bendir á hvers vegna þess háttar tilfinningar kalla fram svona viðbrögð.  Ofnæmi verður til þegar ónæmiskerfi líkamans „lærir“ að bregðast við einhverju efni eins og það væri hættulegt, þó svo að það sé venjulega með öllu skaðlaust.   Sálfræðingurinn Glenda McQueen og samstarfsmenn hennar við McMaster háskólann veltu fyrir sér hvort hægt væri að fá ákveðnar frumur í ónæmiskerfinu til þess að sýna ofnæmisviðbrögð við utanaðkomandi andlegum áhrifum rétt eins og hundarnir hans Pavlovs lærðu að slefa við það að heyra í bjöllu. Rannsakendurnir komu rottum í snertingu við eggjahvítu sem kallar fram ofnæmisviðbrögð í ákveðinni tegund ónæmisfrumna. Þegar allar rotturnar höfðu fengið ofnæmi gaf McQueen þeim eggjahvítusprautur um leið og hann setti af stað blikkandi ljós og suðandi hljóð í 15 mínútur — sem hafði ekkert með ofnæmið að gera. Til samanburðar sprautuðu rannsakendurnir annan hóp af rottum með eggjahvítu heilum sólarhring eftir að þær höfðu orðið fyrir blikkandi ljósum og suðandi hljóðum og ætti það að vera nægilega langur tími til þess að rotturnar gætu ekki sett það í samband við ofnæmið. Annar rottuhópur fékk engar sprautur en var hins vegar þrisvar sinnum látinn þola blikkandi ljós og suðandi hljóð. Allt í allt tók rannsóknin tvo mánuði. Seinna þegar allar rotturnar voru látnar verða vitni að blikkandi ljósum og suðandi hljóðum, voru viðbrögð þeirra verulega mismunandi. Ónæmisfrumur rottanna sem fengu aldrei neina eggjahvítu sýndu lítil viðbrögð hjá því ensími sem þær framleiða venjulega þegar um ofnæmisviðbrögð er að ræða. En fyrsti hópurinn sem hafði fengið ofnæmisvaldandi eggjahvítu og hafði orðið vitni að blikkandi ljósum og suðandi hljóðum samtímis, framleiddi mikið magn af ensíminu. Það var því greinilegt að ljósin og hljóðin kölluðu fram veruleg ofnæmisviðbrögð í þessum hóp þó að engin eggjahvíta hefði verið gefin. Ónæmisfrumur þeirra brugðust við ljósunum og hljóðunum eins og þau væru ofnæmisvaldurinn. Þessi uppgötvun sýnir fram á að ónæmiskerfi okkar getur sýnt ónæmisviðbrögð við því sem við sjáum, heyrum, eða finnum rétt eins og það getur gert við kattarhárum. Ristilbólga til dæmis getur komið eftir rifrildi við yfirmanninn ef ónæmiskerfið er orðið vant því að tengja saman álag í vinnunni við einhvers konar sársauka í maganum. Svona „andlegt ofnæmi“ er greinilega erfiðara að greina heldur en það sem stafar af umhverfisþáttum, en menn ættu fyrir vikið að skilja betur eðli og orsök sjúkdóma sem hafa enga sjáanlega orsök og engar þekktar lækningaleiðir.