Kristjana H. Gunnarsdóttir keppti ásamt þeim Vikari Karli Sigurjónssyni, Bergþóri Magnússyni og Helenu Ósk Jónsdóttur á „Best of the Best“ keppni sem fram fór í Dubai fyrir skemmstu. Keppnin var sterk alþjóðleg keppni og fór svo að bretar sigruðu með örlitlum mun.Kristjana sem hafnaði í þriðja sæti var einungis 9 sek frá öðru sæti. Að sögn Kristjönu var keppnin mjög erfið þar sem mikill hiti var í Dubai og við erfiða andstæðinga að etja. Kristjana segir svo frá: „Keppnin var svakalega erfið og erfiðari heldur en ég ímyndaði mér, líka vegna hita. Það gekk ágætlega en ég endaði í 3 sæti en vantaði einungis 9 sek. í 2 sætið, en í þetta sinn átti ég ekki möguleika á 1.sæti en hún var svaka góð. Það sem gerði útslagið hjá mér var að axlarpressan átti að vera 15 kg stöng og ég var búin að vera að streða með hana hér heima þ.e. náði ekki að taka hana á tempoi. En það voru mistök með stöngina úti og hún var 18,5 kg og ég var gjörsamlega brunnin þar og eyddi alltof löngum tíma í hana. Axlir eru frekar veikur partur hjá mér, svo að ég veit að ef stöngin hefði verið eins og hún átti að vera, þá hefði ég pottþétt náð 2.sæti.“