Sigurvegarar karla 2003Margir sigurvegarar taka þátt
Íslandsmót IFBB í fitness verður haldið nk föstudag og laugardag í Íþróttahöllinni á Akureyri. Alls er 31 keppandi skráður til leiks í karla-og kvennaflokki. Þar af 16 í kvennaflokki og 15 í karlaflokki. Er þessi keppendafjöldi í kvennaflokki með bestu þátttöku frá upphafi. Margir af bestu keppendum landsins mæta til keppninnar að þessu sinni og er spennandi keppni í uppsiglingu þar sem óvenju margir taka þátt sem hafa vermt verðlaunasæti í fyrri keppnum. 

Formfitness að verða vinsælasta keppnisgrein kvenna
Þeir sem lenda í efstu sætunum á Íslandsmótinu hafa undanfarin ár haldið á erlenda grund og tekið þar þátt í Heimsmeistara- og Evrópumótum í fitness. Nú í ár er ennfremur til athugunar að senda keppendur á Norðurlandamót sem haldið verður í Noregi. Erlendis hafa vinsældir formfitness sem keppnisgreinar meðal kvenna vakið mikla athygli í heimspressunni þar sem þátttakan á síðasta heimsmeistaramóti setti þessa keppnisgrein á stall með vinsælustu keppnisgreinum kvenna. Hátt í tvöhundruð konur tóku þátt í síðasta heimsmeistaramóti. Íslandsmótið um næstu helgi er haldið á vegum IFBB sambandsins sem er þriðja stærsta íþróttasambandið í heiminum.

Dagskrá Íslandsmótsins
Forkeppnin hefst á föstudaginn kl 17.00 með dýfum og upptogi hjá körlum og samanburði í öllum flokkum. Í ár er í fyrsta skipti keppt í unglingaflokki kvenna og er ljóst að með því skrefi er breiddin aukin verulega í þessari heilbrigðu keppnisgrein.
Úrslitakeppnin hefst á laugardaginn kl 17.00 og hefst hún á hindranabraut.

Nánari dagskrá fyrir keppendur er að finna hér.