Vöðvar stækka til þess að standast álag sem á þá er lagt, m.a. í æfingum. Ýmislegt þarf að ganga upp til þess að stækkun eigi sér stað. Álagið þarf að vera nægilega mikið til þess að vöðvinn bregðist við með því að reyna að stækka.Amínósýrur þurfa einnig að vera tiltækar úr fæðunni til þess að nýmyndun vöðvaprótína geti átt sér stað. Kanadísku vísindamennirnir Jason Tang og Stuart Philips endurskoðuðu ýmsar rannsóknir og komust að þeirri niðurstöðu að gæði prótína sem neytt er eftir álag eða æfingar getur haft mikið um það að segja hversu mikil nýmyndun vöðvaprótína verður. Með því að borða prótín innan tveggja klukkutíma frá æfingu aukast bæði líkurnar á vöðvauppbyggingu og endurnæringu. Töldu þeir félagar að með því að borða 20-30 g af prótíni innan tveggja tíma eftir æfingu væri hægt að ná hámarks nýmyndun vöðvaprótína. Mysuprótín virkar betur en mjólkur- eða sojaprótín. Það að drekka mjólk eftir æfingu var að mati þeirra félaga ódýr, einföld en áhrifarík leið til þess að flýta fyrir endurnæringu vöðva og uppbyggingu. Afar mikilvægt er að amínósýran leucine sé til staðar því hún gegnir lykilhlutverki í efnaferlum sem varða nýmyndun vöðvaprótína.
(Current Opinion Clinical Nutrition Metabolic Care, 12: 66-71, 2009)