Bætiefnið ZMA varð frægt á einni nóttu árið 2000 þegar birt var niðurstaða rannsóknar eftir þá Brill og Conti sem sýndi fram á að ZMA gæti aukið testósterónframleiðslu í íþróttamönnum um allt að 30%.Í kjölfarið hafa margir vaxtarræktarmenn og áhugafólk um líkamsrækt sem og íþróttamenn tekið ZMA í þeirri von að það sé nokkurs konar „löglegt lyf“ sem örvaði vöðvavöxt. ZMA inniheldur zink og töluvert af B6 vítamíninu og magnesíum. Árið 1960 var gerð rannsókn sem sýndi fram á að karlmenn með lítið af zinki í blóðinu voru einnig með lítið magn testósteróns. Síðari rannsóknir hafa hinsvegar sýnt fram á að zink-bætiefni hafa engin áhrif á testósterónframleiðslu hjá fólki sem var með eðlilegt magn zinks í líkamanum. Rannsókn sem gerð var við þýska rannsóknarmiðstöð að nafni Elite Sport í Cologne sýndi nýverið fram á að ZMA bætiefnið hefur engin áhrif á magn testósteróns í blóði né annað testósterón. Þátttakendur í rannsókninni tóku þrjú ZMA hylki á dag (30 mg af zinki í skammti) í 58 daga. Bætiefnið jók zinkmagnið í blóðinu en hafði engin áhrif á testósterón.
(European Journal of Clinical Nutrition, 63: 65-70, 2009)