Margrét Edda

Búið er að birta keppendalista heimsmeistaramótsins í fitness og módelfitness sem fer fram um helgina í Bialystok í Póllandi. Alls keppa 180 keppendur frá 36 löndum á mótinu. Íslensku keppendurnir keppa við marga af bestu keppendunum í heiminum í dag og eiga erfiða en spennandi keppni framundan. Þær Margrét Jónsdóttir og Elín Kragh keppa í undir 168 sm flokki í módelfitness en í honum eru 26 keppendur. Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir keppir í yfir 168 sm flokki sem fyllir 18 keppendur.

Í umfjöllun um mótið er fjallað um þá sigurstranglegustu í hverjum flokki og eins og gengur eru sumir þekktari en aðrir. Í flokki Margrétar og Elínar eru keppendur frá 20 löndum og ljóst að það verður ekki hægðarleikur að koma þeim fyrir á sviðinu. Í þeirra flokki er núverandi Evrópumeistari, Tanja Canc frá Slóveníu og Liudmila Diachuk frá Úkraníu sem komst í úrslit á Evrópumótinu fyrr á þessu ári. Einnig eru þar Marina Diaz frá Frakklandi og Kristina Karaliute-Stoliaroviene frá Litháen sem varð fimmta á heimsmeistaramótinu 2011 auk fjölda meistara frá hinum ýmsu löndum. Nastassia Jaffe sigurvegari Suður-Afríku, Nina Silic sigurvegari frá Ástralíu og Angeline Jeanson frá Kanada.

Elín Kragh

Í umfjöllun IFBB um undir 168 sm flokkin er ennfremur sagt að alltaf séu góðir keppendur frá Íslandi – sem er ánægjulegt að lesa um íslensku keppendurna – en þaðan komi Margrét og Elín sem þannig eru nefndar til sögu þegar fjallað er um sterkustu keppendur flokksins.

Aðalheiður Ýr keppir í flokki sem er með mörgum nýjum keppendum, enda um nýjan hæðarflokk að ræða. Flokkurinn er gríðarlega sterkur þar sem margir keppendurnir eru sigurvegarar. Þrjár efstu frá síðasta Evrópumóti keppa í hennar flokki – þær Anna Virmajoki frá Finnlandi, Jana Majernikova frá Slóvakíu og Vladimira Krasova frá Tékklandi. Majernikova varð sömuleiðis önnur á heimsmeistaramótinu á síðasta ári í yfir 163 sm flokki. Egle Eller-Nabi frá Eystlandi, Evelina Dranseikaite frá Litháen og Andrea Lackner frá Austurríki urðu sömuleiðis meðal efstu á Evrópumótinu í vor. Margir landsmeistarar keppa sömuleiðis í flokki Aðalheiðar, en þar má nefna landsmeistarana frá Litháen, Þýskalandi, Ástralíu, Póllandi og Austurríki. Allar dyr eru opnar og ómögulegt að segja hver úrslit verða fyrr en þessir sterku keppendur stíga saman á svið.

Aðalheiður

Aðalheiður Ýr varð heimsbikarmeistari í sínum flokki í módelfitness á Bikini World Cup sem haldið var í Búdapest í vor. Hún er því enn einn sterki keppandinn í flokknum og gefur okkur fulla ástæðu til þess að vera bjartsýn og spennt fyrir helgina.