Hvít hrísgrjón eru mun meira unnin en brún. Brúnu hrísgrjónin eru brún vegna þess að ekki er búið að taka ytra hismið af þeim eins og þeim hvítu. Nú benda rannsóknir til þess að þeir sem borða brún hrísgrjón séu í minni hættu gagnvart sykursýki 2 heldur en þeir sem borða hvít hrísgrjón. Brúnu hrísgrjónin innihalda meira af vítamínum, trefjum og steinefnum. Þessi efni eru hinsvegar nánast horfin þegar hrísgrjónin eru orðin hvít sökum þess að þau hverfa í vinnsluferlinu.
Rannsóknin sem hér er vísað í fór fram í Harvard háskólanum í Bandaríkjunum og náði til tæplega 200.000 karla og kvenna. Fólk sem borðaði fimm skammta af hvítum hrísgrjónum á viku var í 20% meiri hættu á að fá sykursýki heldur en þeir sem borðuðu minna en einn skammt á mánuði. Hættan á að fá sykursýki minnkaði um 11% ef menn borðuðu tvo eða fleiri skammta af brúnum hrísgrjónum á viku. Niðurstöðurnar bentu til þess að skynsamlegt væri að draga úr hættunni á sykursýki 2 með því að skipta á hvítum hrísgrjónum og brúnum.

(Archives Internal Medicine, 170: 961-969,2010)