Það er vel þekkt að ofþjálfun á sér neikvæðar hliðar. Það er sömuleiðis vel þekkt að íþróttamenn sem eru undir miklu álagi fái oftar kvef og flensur en aðrir. Orsökin er líklega svefnleysi og streita sem fylgir æfingunum. Rannsókn sem gerð var við Stanford háskólann í bandaríkjunum á tennisspilurum sýndi fram á að auka mátti árangur þeirra í hinum ýmsu prófum með auknum svefni. Niðurstöðurnar sýndu fram á betri tíma í spretthlaupi, meiri nákvæmni og slagkrafti. Í sumum prófunum var um að ræða 30% aukningu á árangri.
Íþróttamennirnir sem tóku þátt í rannsókninni reyndu að sofa í tíu klukkutíma á hverri nóttu. Það var samdóma álit þeirra sem stóðu að rannsókninni að góður svefn væri lykilatriði ef ætlunin væri að ná hámarksárangri.

(American Academy of Sleep Medicine Annual Meeting, 8. júní 2009)