Á síðasta ári var gerð sú breyting á fyrirkomulagi keppninnar í formfitness að í stað einungis fjögurra snúninga eru líka teknar fimm skyldustöður svipaðar og gert er í vaxtarræktinni. Þetta fyrirkomulag var notað á Evrópumótinu sem haldið var sl vor í Rúmeníu.Þeir Kristján Samúelsson og Sigurbjörn Ingi Guðmundsson kepptu á Evrópumótinu fyrr á árinu þar sem þetta fyrirkomulag var notað. Sá munur er á keppni formfitness og vaxtarrækt að keppendur eru vigtaðir og hæðarmældir í formfitness og mega bara vera ákveðið þungir miðað við hæð. Tilgangurinn með þessu er sá að breyta fyrirkomulaginu þannig að keppendur framtíðarinnar leggi áherslu á samræmi og skurð en ekki massa eins og raunin varð með vaxtarræktina. Hafa ber í huga að á fyrstu árum vaxtarræktarinnar voru keppendur álíka massaðir og fitnesskeppendur í dag. Með tímanum fór massinn úr hófi fram og eins og menn vita er ekki heiglum hent að ná þeim óskaplega vöðvamassa sem leitað er eftir í vaxtarrækt atvinnumanna. Forsvarsmenn IFBB útskýrðu tilgang þessara breytinga á sl heimsmeistaramóti á þann veg að almenningur vildi gjarnan eiga sér fyrirmyndir í líkamsrækt sem væru þeim „þóknanlegar“ en væru ekki að sækjast eftir þeim ofurmassa sem vaxtarræktin fer fram á. Á enskunni er þessi keppnisflokkur nefndur „Bodyfitness“ en á heimsmeistaramótinu var lögð fram tillaga um að hann yrði framvegis kallaður „Classic Bodybuilding“. Ekki er það að undra þar sem keppendur taka stöður eins og vaxtarræktarmenn. Þrátt fyrir þessar takmarkanir á vöðvamassa í fitness karla geta fitnesskeppendur verið töluvert vöðvamiklir eins og sést á sigurvegurum síðustu móta.
Það er keppt í einum flokki í fitness eins og staðan er í dag, en til þess að vera gjaldgengur í þann flokk þurfa menn að passa inn í eina af þremur formúlum sem notaðar eru sem viðmiðun. Undir 170 CM flokkur: mesta leyfilega þyngd = hæð [cm] – 100 + 2 Dæmi: Keppandi sem er 172 cm á hæð má mest vera 74 kg. Undir 178 CM flokkur. mesta leyfilega þyngd = hæð [cm] – 100 + 4 Dæmi: keppandi sem er 178 cm á hæð má ekki vera þyngri en 82 kg. Yfir 178 CM flokkur: Mesta leyfilega þyngd = hæð [cm] – 100 + 6 Dæmi: keppandi sem er 180 á hæð má ekki vera þyngri en 86 kg. Keppt hefur verið samkvæmt þessum stöðlum síðastliðin tvö ár á alþjóðlegum mótum og virðist þessi formúla vera nokkuð sanngjörn gagnvart keppendum sem eru mis-háir. Dæmt er út frá sömu forsendum og í vaxtarræktinni, en eins og keppnisflokkarnir gefa til kynna eru þessar takmarkanir gerðar á massa. Til skoðunar er að vigta og hæðarmæla íslenska keppendur á næsta íslandsmóti, en þar sem þetta hefur ekki verið reynt áður liggur ekki fyrir hvort þetta verði sett sem keppnisskilyrði. Það verður kynnt síðar í desember.