Blóðsykur skipar stórt hlutverk í almennu heilbrigði og ekki síst því að halda sér í góðu formi. Ef blóðsykurinn flakkar mikið upp og niður sem helst gerist vegna sætindaáts fer allur agi og sjálfstjórn norður og niður og líkurnar á að óhollir skyndibitar verði fyrir valinu eru miklar. Ójafnvægi í blóðsykri er vítahringur þar sem ofát er fylgifiskur sætindaþarfarinnar. Með því að borða með reglulegu millibili yfir daginn er mun líklegra að blóðsykurinn haldist í sæmilegu jafnvægi og þar með er auðveldara að forðast hitaeiningaríka fæðu.

Insúlín er hormón sem leikur lykilhlutverk í blóðsykurstjórnun. Briskirtillinn framleiðir insúlín eftir þörfum þar sem magn blóðsykurs í blóðrásinni gefur til kynna þörfina fyrir insúlín.

Lélegt mataræði og hreyfingaleysi veldur því hinsvegar að næmni insúlínviðtaka minnkar og þar með skapast frekar ójafnvægi í blóðsykri.

Lance Bullinger og Tom Lafontaine endurskoðuðu rannsóknir sem varða offitu, insúlín og blóðsykur og komust að því að offita og hreyfingaleysi hafa mikið að segja um næmni insúlínviðtaka. Insúlínviðnám er alvarlegt vandamál sem talið er að hrjái 8% almennings, sérstaklega meðal velmegandi þjóða. Æfingar vinna hinsvegar vel á insúlínviðnámi vegna þess að þær auka næmni insúlínviðtakana og efla nýtingu vöðva á blóðsykri. Frumurnar í briskirtlilnum sem framleiða insúlínið verða sömuleiðis sprækari þegar æfingar koma við sögu. Æfingarnar draga líka úr áhættuþáttum sem fylgja lélegri blóðsykurstjórnun eins og háþrýstingi, offitu á magasvæðinu, blóðfitu og bólgum.

(Strength Conditioning Journal 33: (5): 40-43, 2011)