Negatífar æfingar skila bara árangri ef rétt er með farið, annars eru þær beinlínis hættulegar

Það að taka svonefndar negatífar æfingar getur hjálpað til við vöðvauppbyggingu og aukið styrk ef rétt er með farið. Það kallast að taka negatífar æfingar á máli líkamsræktarmanna þegar lyft er þar til gefist er upp og jafnvel reynt að taka eina til tvær lyftur til viðbótar með aðstoð æfingafélaga. Ef þetta er gert of oft getur það bælt hormónakerfi líkamans og stuðlað að ofþjálfun, bælingu ónæmiskerfisins og valdið meiðslum sem rekja má til ofþjálfunar.

Ofþjálfun er varhugaverð sama hvaða harðjaxl á í hlut. Til þess að komast hjá þessu er nauðsynlegt að skipta reglulega um æfingaáætlun og taka tímabil þar sem æft er töluvert undir hámarksþyngdum. Með því móti er líkamanum gefið tækifæri til hvíldar og mun líklegra er að hann nái að vaxa og dafna eins og til stóð. Sumum kann að þykja töffaraskapur falinn í því að taka negatífar æfingar. Ef þannig er æft of lengi verður líkaminn smátt og smátt lengur að ná sér eftir æfingar og það bitnar á öðru. Ef aðrar íþróttagreinar eiga í hlut má búast við að það taki lengri tíma en ella að tökum á tæknilegum atriðum. Negatífar æfingar geta líka valdið skaða á vöðvafrumum og skapað ástand sem kallast rákvöðvalýsa (rhabdomyolysis). Líkamsræktarfólk vill ekki fá rákvöðvalýsu. Þetta kann að hljóma undarlega en hér er um að ræða ákveðið vöðvaþrot og skemmdir á vöðvafrumum sem felst í að mýóglóbín (vöðvarauði) berst út í blóðið og veldur nýrnabilun. Negatífar æfingar og árangurinn sem þær geta boðið upp á byggist á að rétt sé með farið. Ef ekki getur þessi æfingaaðferð beinlínis verið hættuleg – og skilar þannig engum árangri.

(Strength and Conditioning Journal, 32(3): 21-29, 2010)