Vials and SyringeÞað vakti mikla athygli fyrir um 10 árum þegar innihald í ýmsum bætiefnum í Evrópu var kannað og í ljós kom að fjórðungur bætiefnanna í úrtakinu og seld voru á internetinu innihélt bönnuð lyf. Ástandið virðist ekki hafa breyst mikið – Í Evrópu. King´s stofnunin í lyfjafræðum í London kannaði nýlega innihald í 24 tegundum bætiefna og fann bönnuð efni í 23 af þeim. Öll bætiefnin voru valin úr hillum tveggja verslana sem auglýstu þau sem löglega staðgenglar stera eða forhormón. Það var því ekki beinlínis um að ræða hefðbundin bætiefni en engu að síður bætiefni sem áttu að vera lögleg. Við mælingar kom í ljós að þessir meintu löglegu bætiefna-forstera innihéldu raunverulega vefaukandi stera sem eru bannaðir af WADA. Þetta voru því ekki saklaus forhormón, heldur einfaldlega vefaukandi sterar sem hefðu fellt hvern sem er á lyfjaprófi.
Í öllum tilfellum var um Evrópska framleiðendur að ræða. Í sumum tilfellum bílskúrsfyrirtæki sem selja fyrst og fremst á internetinu. Ekki er vitað til þess að það sama gildi um bætiefni sem framleidd eru í Bandaríkjunum. Í það minnsta hafa sambærileg mál ekki komið upp þar.
Hér á landi er bannað að flytja inn bætiefni sem innihalda forhormón og ekki er vitað til þess að vafasöm bætiefni af þessum toga séu seld hér á landi í dag frekar en fyrir 10 árum þegar allt varð vitlaust vegna fullyrðinga í fjölmiðlum um að bætiefni almennt innihéldu bönnuð efni. Mikill meirihluti bætiefna sem flutt eru til landsins koma frá Bandaríkjunum og svona tilfelli hafa ekki enn komið upp hér.
Íþróttamenn sem vilja vera vissir um að falla ekki á lyfjaprófi geta eflaust aldrei verið fullkomlega vissir um að það sem þeir kaupa innihaldi ekki bönnuð efni. Þrennt er þó hægt að gera til þess að draga úr líkunum á því. Í fyrsta lagi að kaupa ekki lítt þekkt bætiefni í gegnum vefverslanir erlendis, sérstaklega ekki frá Evrópu. Einnig að versla við vel þekkta framleiðendur og þá ekki síst hér á landi þar sem ólíklegt er að íslenskir söluaðilar hafi áhuga á að selja vafasöm efni og ekki er vitað til þess að þau hafi verið í sölu hér á landi. Í þriðja og síðasta lagi að versla bætiefni sem eru skráð hjá informed-sport.com. Þar er listi yfir bætiefni og framleiðendur sem hafa verið prófuð gagnvart bönnuðum eða hættlegum efnum.
(Drug Testing Analysis, vefútgáfa 6. október 2014)