Um 65% þeirra sem eru orðnir það feitir að þeir flokkist sem offitusjúklingar borða meirihluta hitaeininga sinna eftir klukkan 19.00 á kvöldin. Gerðar hafa verið nokkuð margar rannsóknir á hegðunarmunstri þeirra sem eru orðnir alltof feitir.Karlar sem eiga sér lítið líf og eru þunglyndir eru helst ginkeyptir fyrir því að borða á næturnar samkvæmt Ástralskri rannsókn. Í öðrum rannsóknum hafa komið fram vísbendingar um að lítið sé af ghrelin hormóninu hjá þeim sem hættir til að hafa óeðlilega mikla matarlyst en aftur á móti hátt insúlín- og blóðsykursgildi. Ghrelin hormónið hefur það mikilvæga hlutverk að stjórna matarlyst. Líklegt þykir að óregla í lífsklukku líkamans eins og þetta fyrirbrigði er nefnt komi hér við sögu. Ástæðan er líklega slæmar svefnvenjur sem verða til þess að líkaminn framleiðir ekki eðlilegt magn af melatónín hormóninu og leptín hormóninu. Melatónín hormónið hefur mörg og mikilvæg hlutverk í líkamanum, bæði fyrir mótefnakerfið sem og svefn, en leptín hefur m.a. hlutverki að gegna í fituefnaskiptum. Þegar upp er staðið er því ekki ólíklegt að helsta ástæðan fyrir þessu næturáti sé óreglulegur svefn. Hvort þunglyndi leiðir til óreglulegs svefns sem kemur þessum vítahring af stað eða öfugt, skal ósagt látið. Af þessu mætti engu að síður draga þá ályktun að óreglulegur svefn sé stærri áhrifaþáttur í offituvandamálinu en áður var talið.