Ein ástæða þess að karlar lifa að meðaltali skemur en konur er að þeir fara helst ekki til læknis fyrr en þeir eru orðnir alvarlega veikir. Þeir fara ennfremur sjaldnar til læknis heldur en konur.Karlar eru þannig ekki jafn líklegir og konur til þess að fá nauðsynlegar upplýsingar um lyf eða lífsstílsbreytingar sem myndu ella bjarga lífi þeirra ef þeir væru ekki svona þrjóskir og færu til læknis. Af þessum sökum og hugsanlega þeirri ástæðu að karlar taka heilbrigðan lífsstíl ekki jafn alvarlega og konur, lifa þeir skemur.

Þó okkur hjá FF sé frekar illa við að heimfæra bandarískar rannsóknir yfir á íslendinga má ætla að eitthvað eigi íslenskir karlmen sameiginlegt við bandaríska. Þar í landi hafa rannsóknir sýnt að 92% karlmanna bíða í nokkra daga með að fara til læknis þó eitthvað hrjái þá til þess að vita hvort það sem að er læknist ekki af sjálfu sér. 30% þeirra segjast frekar bíða þar til þeir séu við dauðans dyr heldur en að fara til læknis. Í umræddri rannsókn sögðust 80% karlmannanna vera við góða heilsu og sáu enga ástæðu til þess að leita til læknis.

Þessir sömu menn eyddu hinsvegar að meðaltali 18 tímum á viku í að horfa á sjónvarp og minna en 5 tímum á viku í einhverja hreyfingu. Það eitt og sér er næg ástæða til þess að fara í læknisskoðun. Þrýstingur frá maka hefur reynst mikilvægur til þess að fá þessa þrjóskuhunda til þess að fara til læknis. Þegar loksins tekst að koma vitinu fyrir þá fer mikill meirihluti þeirra eftir ráðleggingum læknisins. Það er því þess virði fyrir makann að nöldra og þrýsta á þann þrjóska til þess að koma honum til læknis.

Heimild: WebMD, 20. júní 2007