Metþátttaka var á Þrekmeistaranum sem fór fram laugardaginn 7. nóvember í Íþróttahöllinni á Akureyri. 352 keppendur frá 26 æfingastöðvum úr 16 bæjarfélögum víðsvegar um landið tóku þátt.

Þrjú Íslandsmet féllu á þessu fjölmenna móti og margir voru sekúndum frá gildandi Íslandsmetum.

 

Sveinbjörn Sveinbjörnsson bætti eigið Íslandsmet í opnum flokki karla um 33 sekúndur þegar hann fór brautina á tímanum 15:09:20 og sýndi þar að óðum styttist í að farið verði undir 15 mínútna múrinn. Jón Hjaltason sló sömuleiðis eigið Íslandsmet í flokki 39 ára og eldri um eina mínútu og tuttugu sekúndur. Jón sýndi og sannaði þarna að öldungaflokkurinn gefur hinum yngri lítið eftir í ljósi þess að hann var einungis hálfri mínútu á eftir Sveinbirni og Íslandsmetinu í opnum flokki. Liðið Nöldur og nagg bætti ennfremur metið í flokki liða eldri en 39 ára þegar það fór á tímanum 13:40:45 og bætti þannig eigið met um 15 sekúndur.

 

Baráttan jöfn í karlaflokki

Annar á eftir Sveinbirni í karlaflokki kom Aðalsteinn Sigurkarlsson á tímanum 15:36:82, einungis þremur sekúndum frá gamla Íslandsmetinu. Þriðji var Jón Hjaltason sem líka keppir í flokki 39 ára og eldri eins og áður sagði, en hann fór á tímanum 15:39:93. Á eftir þeim voru sex keppendur sem eru að nálgast það að fara undir 16 mínútna múrinn.

 

Kristjana tveimur sekúndum frá Íslandsmetinu í kvennaflokki

Kristjana Hildur Gunnarsdóttir var tveimur sekúndum frá því að bæta eigið Íslandsmet í opnum kvennaflokki þegar hún fór brautina á 15:50:40 en í öðru sæti á eftir henni fór Ingunn Lúðvíksdóttir á tímanum 16:37:86. Svolítið skondið að Ingunn bætti eigið persónulegt met um eina sekúndu. Ásta Ósk Stefánsdóttir tók þriðja sætið á tímanum 17:40:80.

 

Steinunn Linda sigraði í flokki 39 ára og eldri

Steinunn Linda Jónsdóttir sem tók þátt í sínum fyrsta Þrekmeistara sigraði í flokki kvenna eldri en 39 ára á tímanum 18:23:28, tæplega mínútu frá Íslandsmetinu.  Þuríður Þorkelsdóttir var sex sekúndum á eftir Steinunni á tímanum 18:29:73 og bætti persónulegt met um 40 sekúndur. Þriðja í flokki kvenna 39 ára og eldri var Ólafía Kvaran sem eins og Steinunn var að keppa á sínum fyrsta Þrekmeistara. Hún fór brautina á 18:40:93.

 

Bræðurnir bættu báðir gamla Íslandsmetið

Þeir bræður Jón og Þorsteinn Hjaltasynir, Guðlaugur B. Aðalsteinsson og Aðalsteinn Sigurkarlsson eru orðnir fastir liðir á verðlaunapallinum á Þrekmeistaranum. Þeir æfa saman í Vaxtarræktinni á Akureyri og ekki verður laust við að vart verði við meting á milli þeirra. Þeir Jón og Þorsteinn fóru báðir á betri tíma en Íslandsmet Jóns frá því í vor.  Þorsteinn bætti metið um sex sekúndur en Jón bætti um betur.  Guðlaugur B. Aðalsteinsson varð þriðji á eftir þeim bræðrum og fór á tímanum 17:01:84 sem var 40 sekúndna bæting á sínum besta tíma. Þessir 4 æfingafélagar í Vaxtarræktinni á Akureyri fengu 5 af 6 verðlaunum sem voru í boði í einstaklingsflokkunum á Þrekmeistaranum. Það verður að teljast gott. 

 

Tvenndarkeppni: nýr og skemmtilegur keppnisflokkur

Keppt var í tvenndarkeppni á Þrekmeistaranum. Fer þá karl og kona saman í gegnum brautina og skiptast á að gera aðra hvora æfingu. Mikill hasar var í gangi þegar tvenndarkeppnin fór í gang, enda spennandi að sjá hvernig þessi nýja grein færi fram. Hasarinn gaf liðakeppninni ekkert eftir. 34 keppendur voru í tvenndarkeppninni en það var Lífsstílstvennan frá Lífsstíl í Keflavík sem sigraði á frábærum tíma, 13:24:11. Keppnin var hinsvegar afskaplega jöfn þar sem fimm tvenndarpör fóru í gegnum brautina á innan við 15 mínútum. Einungis sjö sekúndur skildu að annað til fjórða sætið. Annie og Tobbi náðu öðru sætinu á tímanum 14:03:86 en Team Gústi og Hillary höfnuðu í þriðja sæti á tímanum 14:07:62.  Þessi keppnisgrein er tvímælalaust komin til að vera, en ljóst er að gera þarf eina breytingu á framkvæmd keppninnar og það er að ákveða fyrir næstu keppni hvort það verði karlinn eða konan sem byrjar alltaf í brautinni.

 

5 fræknar enn og aftur með gullið, en sex sekúndum frá eigin Íslandsmeti

Það er erfitt að lýsa því hverslags hasar fer í gang þegar liðakeppnin fer af stað. Fimm manns eru í hverju liði og þegar hæst lætur eru jafnvel átta lið samtímis í brautinni. Hvatningarköll og angistarstunur óma í loftinu þegar barist er um hverja sekúndu. Í liðakeppni kvenna munaði einungis 18 sekúndum á fyrstu þremur sætunum. Enn og aftur náði liðið 5 fræknar frá Lífsstíl í Keflavík fyrsta sætinu þegar þær fóru á tímanum 13:38:88. Einungis sex sekúndur vantaði upp á að þær bættu eigið Íslandsmet. BC-Wonder liðið fór á tímanum 13:42:68 og ógnaði þannig einveldi 5 fræknu. Liðin fóru hlið við hlið í gegnum brautina og ætlaði því allt um koll að keyra, enda munaði innan við fjórum sekúndum á liðunum.

BC-súper liðið nartaði í hælana á 5 fræknum og BC-Wonder, enda náðu þær frábærum tíma, 13:57:18 sem veitti þeim þriðja sætið í liðakeppni kvenna. Einungis eitt lið keppti í liðakeppni kvenna 37 ára og eldri, en það var liðið Dirty nine Lífsstíll sem fór á tímanum 16:05:00.

 

Hasar í liðakeppni karla

Lið frá BootCamp röðuðu sér í fjögur efstu sætin í liðakeppni karla, öll á fáránlega góðum tíma – innan við 13 mínútum. Black Hawk Down sigraði á tímanum 12:12:68. Í öðru sæti varð liðið BC-Drumbar á tímanum 12:24:17 og 5Tindar fóru á tímanum 12:33:34 sem kom þeim í þriðja sætið. Alls kepptu 23 lið í liðakeppni karla sem sýnir hversu óskapleg lætin eru þegar liðin fara í gegnum brautina á meðan allt á milli þungarokks og Michael Jackson hljómar í eyrunum.

Í liðakeppni karla yfir 39 ára kepptu sex lið. Liðið Nöldur og Nagg bættu eigið Íslandsmet eins og áður sagði með því að fara brautina á 13:40:45 en á eftir þeim kom liðið Old Spice á tímanum 15:15:02. Old Spice bætti þannig eigin tíma verulega, eða um tvær og hálfa mínútu. Í þriðja sæti kom Öldungaráðið frá Bjargi á Akureyri. Þeir kepptu þarna á sínum fyrsta Þrekmeistara og náðu tímanum 16:00:77.

 

Langur dagur gekk vel

Það er margt sem þarf að ganga upp til þess að keppni á borð við Þrekmeistarann gangi vel fyrir sig. Velvilji ótal áhugamanna er forsenda þess að framkvæmdin gangi snuðrulaust fyrir sig og það eru sem betur fer margir sem eru tilbúnir að taka að sér dómgæslu og tímavörslu. Þessu fólki ber að færa þakkir fyrir frábært starf á laugardaginn. Tímaáætlanir gerðu ráð fyrir að ræsa fyrstu keppendur á mínútunni níu um morguninn og gekk það eftir. Upphaflega var gert ráð fyrir að síðasta ræsing færi fram klukkan 18.22, sem miðaðist við að ræsa inn í brautina á 7 mínútna fresti. Raunin hefur verið sú að á undanförnum mótum hefur verið ræst inn í brautina á rúmlega sjö og hálfrar mínútu fresti. Keppendur voru hinsvegar undantekningarlítið alltaf mættir á réttum tíma í ræsingu á laugardaginn og gengu ræsingar því vonum framar. Fór svo að hægt var að ræsa á innan við 7 mínútna fresti, sérstaklega þegar hröðustu keppendurnir fóru inn í brautina og fór því svo að síðasta ræsing var framkvæmd klukkan 17.33, eða 49 mínútum á undan áætlun.

Nú er næsta skref að skipuleggja fjölmennari Þrekmeistara en þetta. Frá árinu 2001 þegar fyrsta keppnin var haldin hefur keppendafjöldinn jafnt og þétt verið að aukast. Fátt bendir til annars en að fjöldinn muni halda áfram að aukast. Aðstandendur Þrekmeistarans eru Einar Guðmann og Sigurður Gestsson, en allar tillögur að útfærslu þessara keppna eru vel þegnar.

kv. Einar Guðmann

einar@fitness.is.

 

Úrslitin eru hér.

 

Myndir í myndasafni. 348 myndir.