Íþróttamenn eyða stórfé í bætiefni sem og aðferðir til þess að ná að jafna sig fljótar eftir erfiðar æfingar. Hætt er við að þeir gleymi náttúrulegustu aðferðinni, sem er svefninn. Vöðvar stækka og vefir ná að jafna sig þegar við sofum. Ef æft er af kappi þarf líkaminn á meiri svefni að halda til þess að jafna sig og ná að styrkjast. Ef ekki fæst nægur svefn, verður um niðurbrot að ræða, ekki eingöngu líkamlega, heldur líka andlega. Menn verða misjafnlega upplagðir líkamlega og gjarnari á að sveiflast til tilfinningalega sem og andlega.
Til þess að ná góðum svefni er mikilvægt að fara að sofa á sama tíma á hverju kvöldi. Ef farið er að sofa klukkan tíu að kvöldi eitt kvöld og það næsta klukkan fjögur að nóttu, virkar það svipað og að þjást af flugþreytu. Við slíkar aðstæður nær líkaminn síður að byggja upp vöðvamassa og hvíla sig eðlilega eftir æfingar.