Erfðir ráða því hversu hratt líkaminn vinnur úr kaffi Ekki er laust við að niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á kaffi séu misvísandi. Gerðar hafa verið fjölmargar rannsóknir sem hafa ýmist sýnt fram á jákvæð eða neikvæð áhrif af þessum vinsæla drykk.Skýring á þessum misjöfnu niðurstöðum kann að felast í mismunandi efnaskiptum fólks samkvæmt niðurstöðum vísindamanna við Háskólann í Næringarfræði í Toronto í Bandaríkjunum. Það eru því breytileikar í genum fólks sem ráða því hvort efnaskipti þess vinni hratt eða hægt úr kaffi. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl kaffidrykkju við aukna hættu á hjartaáfalli og skýringin virðist vera sú að þar eru á ferðinni einstaklingar sem vinna hægt úr kaffi. Neikvæð áhrif kaffis virðast því bundin við það fólk sem er í þeim hópi sem vinnur hægt úr kaffi. Fólk sem vinnur hratt úr kaffi virðist vera í mun minni hættu gagnvart neikvæðu áhrifunum. Það er þessi breytileiki í erfðum sem gerir það líka að verkum að sumir eiga mjög auðvelt með að ná árangri í æfingum á meðan aðrir virðast þurfa að hafa mun meira fyrir árangrinum. Margt virðist því vera ólært í áhrifum gena og erfða þegar mataræði, æfingar og sjúkdómar eru annars vegar svo eitthvað sé nefnt. Fólk er gjarnt á að spyrja einfaldra spurning og óska eftir einföldum svörum. Raunin er sú að það sem gerir einum ekkert mein er ekki endilega meinlaust fyrir annan. Persónuleg reynsla af kaffidrykkju ætti því að segja til um það hvort það geri viðkomandi gott eða vont. Ekki er hægt að alhæfa eitt yfir alla. Journal American Medical Association, 295:1135-1141, 2006.