Tveir af hverjum þremur karlmönnum sem eiga í höggi við kransæðasjúkdóma eiga sömuleiðis við risvandamál að stríða. Það sem sameinar þessa tvo hópar er lélegt ástand á svonefndum innþekjufrumum æða.Það eru frumurnar sem klæða æðaveggina að innan. Þær seyta efni sem heitir niðuroxíð og hefur töluvert með blóðflæði að gera, ekki síst að limnum. Ástand innþekjufrumna er talið gefa til kynna heilbrigðisástand efnaskipta og skiptir miklu fyrir kynferðislega frammistöðu og um leið eru innþekjufrumur mikilvægar fyrir heilbrigt hjarta og kransæðakerfi og vörn gegn sykursýki. Viðamiklar rannsóknir sem niðurstöður hafa verið birtar úr á undanförnum fimm árum hafa sýnt fram á að risvandamál er leynd vísbending um hjartasjúkdóma. Æðarnar sem liggja að limnum eru mjórri en aðrar æðar í líkamanum þannig að þær verða fyrr fyrir barðinu á ýmsum þáttum sem leiða síðar til sjúkdóma. Er þar átt við þætti á borð við mikla blóðfitu, reykingar og háan blóðþrýsting. Risvandamál hjá karlmanni getur því verið dýrmætt á sinn tvíræða hátt. Jafn ömurlegt einkenni og það kann að vera er það hinsvegar vísbending sem gæti bjargað lífi viðkomandi. Karlar sem verða varir við risvandamál ættu því ekki að hika við að leita til læknis.
(International Journal Impotence Research, 20: 9-14, 2008)