Til þess að limur reisi sig þarf samhæfing nokkurra þátta að ganga eðlilega fyrir sig í líkamanum. Taugakerfið og blóðflæðisstjórnun líkamans þarf að vinna saman.Blóðflæði til limsins þarf að vera mikið, sléttu vöðvarnir sem stjórna blóðflæðinu að limnum þurfa að slaka á og tefja þarf fyrir blóðstreyminu í bláæðunum sem liggja frá limnum. Reisn byggist að miklu leiti á heilbrigðum innþekjufrumum sem eru innan á æðaveggjunum sem ligggja að limnum. Innþekjufrumurnar seyta frá sér nituroxíði sem kemur af stað viðbrögðum sem fá blóðið til að streyma til limsins. Ef efnaskiptaheilbrigði er ábótavant raskast seyting nituroxíðs frá innþekjufrumunum. Þar með raskast líka hið flókna ferli sem framkallar harða reisn. Vísindamenn hafa komist að því að þeir þættir sem hafa áhrif á reisn hafa líka áhrif á heilbrigði annarra æða. Afleiðingin getur því verið hjarta- og kransæðasjúkdómar eða heilablóðfall. Eins og búast má við eru vísindamenn víða um heim að leita leiða til þess að bæta heilbrigði innþekjufrumna með von um að það verði til bóta fyrir heilbrigt hjarta- og kransæðakerfi auk þess að bæta kynlífið.
(International Journal Impotence Research, 20: 2-8, 2008)