Hormónakerfi líkamans hefur þróast í gegnum árþúsundin til þess að við komumst af á erfiðum tímum.Þegar menn reyna að léttast með því að fara á hitaeiningaminna mataræði eykst yfirleitt matarlyst og líkaminn hægir á efnaskiptunum. Þetta eru sjálfkrafa viðbrögð líkamans við svelti sem hafa þróast í gegnum árþúsundin og hafa oft á tíðum verið nauðsynleg til að hvetja manninn til að lifa af við erfiðar aðstæður. Í velmegun dagsins í dag er þetta til mikillar bölvunar fyrir þá sem virðast hafa meiri hæfileika á þessu sviði en aðrir. Safna þeir spiki sem aldrei fyrr.

Líkaminn á sér svokallaðan þyngdarnúllpunkt sem vísindamenn eru nýlega byrjaðir að átta sig á. Þegar líkaminn hefur verið í ákveðinni þyngd um margra mánaða skeið, helst eitt til tvö ár, er sú þyngd orðin að hans þyngdarnúllpunkti. Ef hann breytist þannig að líkaminn léttist eru það sjálfkrafa viðbrögð hans að kalla fram hungur og sífellda matarlyst til þess að reyna að viðhalda þyngdarnúllpunktinum. Þetta er ein ástæðan fyrir því að menn eru óþarflega gjarnir á að fara aftur í sama farið þegar þeir hafa gefist upp á ströngu mataræði og byrja aftur að lifa í unaðsheimi matreiðslunnar. Það eru nokkur hormón og efni sem hafa áhrif á þetta ferli, en eitt af þeim er hormónið Ghrelín. Það ku hafa áhrif á matarlyst, efnaskipti kolvetna og frumuvöxt. Þegar fólk borðar, minnkar magn þessa hormóns sem verður til í maganum, en þegar svengdin kveður að eykst magn þess.

Breskir vísindamenn hafa komist að því að virkni Ghrelíns megi rekja til áhrifa þess á losun vaxtarhormóna. Í ljósi þessa gera menn sér vonir um að lyf sem gæti sett hömlur á Ghrelín hormónið myndi koma í veg fyrir svengdartilfinningu. Fram að því getum við hinsvegar notað þessar upplýsingar til að læra inn á hið flókna verkfæri sem líkaminn er og notað þá þekkingu til að „létta” hann ögn og viðhalda þeirri léttingu þar til þyngdarnúllpunkturinn er orðinn léttari.