Við vitum í dag eftir ótal rannsóknir að kreatín eflir styrk og bætir vöðvamassa. Þetta er ekki hægt að segja um öll bætiefni með jafn afgerandi hætti. Kreatín er í fiski, kjöti og hinum ýmsu dýraafurðum. Sáralítið er af kreatíni í afurðum sem koma úr jurtaríkinu. Virkni þess byggist á þátttöku þess í myndun orkusambands sem kallast kreatín-fosfat sem er nauðsynlegt fyrir hin ýmsu efnaskiptaferli í líkamanum. Sökum þess að kreatín er helst að finna í dýraafurðum er hætt við að grænmetisætur fái það í takmörkuðu magni.

Í breskri rannsókn sem gerð var við Háskólann í Swansea var grænmetisætum gefin 20 grömm af kreatíni í fimm daga og voru síðan gerðar hinar ýmsu prófanir.

Helstu niðurstöðurnar voru þær að minni batnaði í grænmetisætunum.

Viðbragðstími varð sömuleiðis betri í bæði grænmetisætum og þeim sem voru ekki grænmetisætur. Út frá andlegum eiginleikum er ekki ólíklegt að grænmetisætur gætu haft gott af því að fá meira kreatín samkvæmt þessum niðurstöðum. Það er hinsvegar vert að spyrja sig hvort grænmetisæta sem tekur kreatín sem bætiefni sé ennþá grænmetisæta?

(British Journal of Nutrition, vefútgáfa í desember 2010)