Það er afar gagnlegt að nota klaka til þess að kæla vöðva eða svæði sem hefur bólgnað upp vegna meiðsla. Aftur á móti er varasamt að nota klaka til þess að kæla vöðva eða liðamót á æfingum eða á meðan keppni stendur.

Ef vöðvi kólnar aukast líkurnar á meiðslum og frammistaðan verður ekki eins góð og búast mætti við. Það er eflaust ekki algengt að íþróttamenn noti klaka eða kælipoka á meðan æfingum stendur, en sé um íþróttameiðsli að ræða, kæla sumir vöðva á milli átaka. Þetta er óráðlegt eins og áður sagði.

Áhrif kælingar hafa verið mæld með því að kanna frammistöðu íþróttamanna í spretthlaupi, jafnfætis-stökki og fleiri greinum. Sé vöðvinn aftan á lærinu kældur í 10 mínútur dregur verulega úr árangri. Sé um einungis 3 mínútur að ræða eru áhrifin hinsvegar engin.
Notkun klaka til þess að draga úr bólgum vegna meiðsla er mjög gagnleg, en það ætti alls ekki að nota klaka fyrir æfingu eða á meðan henni stendur.
(Journal Strenght Conditioning Research, vefútgáfa desember 2008)