Katrín Edda Þorsteinsdóttir
Katrín Edda Þorsteinsdóttir

Nafn: Katrín Edda Þorsteinsdóttir
Fæðingarár: 1989
Bæjarfélag: Reykjavík
Hæð: 167
Keppnisflokkur: Módelfitness kvenna -168
Heimasíða eða Facebook: http://www.facebook.com/katrinedda
Atvinna eða skóli: Mastersnám í vélaverkfræði í KIT í Þýskalandi

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að keppa?

Ég byrjaði fyrst í þjálfun hjá Röggu Nagla á 1. ári mínu í verkfræðinni, 2010, og hún eiginlega kynnti mig fyrir lóðaþjálfun og heilbrigðu líferni og byrjaði ég að lyfta fyrir alvöru þá og elskaði hvernig líkaminn styrktist og mótaðist. Seinna það sama ár kepptu tvær vinkonur mínar í fitness og módelfitness og kviknaði áhuginn örlítið og ég ákvað að leita til sama þjálfara og þær höfðu verið hjá, Konráðs Vals Gíslasonar, í World Class, og hvatti hann mig til þess að keppa í á Íslandsmótinu 2011 í módelfitness 4 mánuðum síðar og hefur hann verið mín stoð og stytta í þessu öllu saman.

Keppnisferill:

International Austrian Championship 2013 – 2. sæti
Íslandsmót 2013 – 4. sæti
Íslandsmót 2012 – 3. sæti
Arnold Classic 2012 – 11. sæti
Bikarmót 2011 – 1. sæti og 3. sæti í heildarkeppni
Íslandsmót 2011 – 7. sæti

Hverjir eru helstu stuðningsaðilar þínir?

Sportlíf
Sælan
Makeup – Sara Johansen
Neglur og Augnhár – Auður
Iceland Fitness
World Class Iceland

Hvaða æfingakerfi hefur virkað best fyrir þig?

Ég fer 5-6 sinnum í viku í ræktina þegar ég er ekki í niðurskurði. Ég skipti dögunum jafnt milli líkamsparta og einblíni á þá vöðvahópa sem ég vil bæta. Einnig hef ég gaman að öllu hoppi og skoppi og sippa iðulega milli setta. Þar sem ég er búsett í Þýskalandi býður veðurfar upp á talsvert meir heldur en Ísland og hef ég nýtt mér það alltaf þegar tækifæri gefst að hreyfa mig úti og eru hjólatúrar í góðu veðri í uppáhaldi.

Hvernig er mataræðið?

Ég byrjaði að styðjast við lotubundnar föstur fyrir rúmu ári og finnst það henta mínum upptekna lífsstíl afar vel. Þá borða ég innan ákveðins tímaramma, yfirleitt um 6-8 klukkustundir, en í niðurskurði minnka ég tímarammann niður í 4-6 klukkustundir og borða yfirleitt 3 stórar máltíðir.
Hlutföll kolvetna, próteins og fitu reikna ég sjálf og hefur hentað mér best að hafa þau 40/40/30 í niðurskurði. Dæmi um 3 máltíðir í niðurskurði hjá mér eru:
Máltíð 1:
70g haframjöl + 10 rúsínur + hálfur banani + 1 msk hörfræ og annað hvort 11 eggjahvítur + 1 egg eða 60 g mysuprótein
Máltíð 2:
300 g kjúklingur + 100 g sætar kartöflur og allt það grænmeti og salat sem ég get í mig látið
Máltíð 3:
350 g hreint skyr eða 70 g casein prótein og 20 g hnetusmjör.
– Eftir því hvernig niðurskurður gengur bæti ég svo inn í matseðilinn eða dreg úr.

Hvaða bætiefni hefur virkað best fyrir þig?

Mysuprótein

Hvaða bætiefni ertu að taka, hve oft og hve mikið?

Ég tek alltaf fjölvítamín og auk þess Pure Pharma þrennuna sem inniheldur D-vítamín, steinefnablöndu og Omega-3 hylki.
Einnig drekk ég alltaf einhvers konar „preworkout“ og er S.A.W. í uppáhaldi en ég blanda við BCAA amínósýruduft frá Scitec fyrir æfingar. BCAA-duftið drekk ég 2-3 á dag.
Mysuprótein og caseinprótein frá Scitec eru einnig í uppáhaldi.

Seturðu þér markmið?

Já, ég set mér alltaf markmið í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég set mér bæði skammtíma- og langtímamarkmið.

Hvað er það sem hvetur þig áfram á erfiðum dögum?

Að maður uppsker eins og maður sáir.
Ég set mér háleit markmið og tek oft að mér mörg verkefni. Oft koma dagar þar sem ég held ég muni ekki komast yfir þau en þá man ég eftir öllu sem ég hef afrekað hingað til og átta mig á því að maður getur allt sem maður ætlar sér ef maður sýnir nægja þrautseigju, metnað og ákveðni.

Hver er uppáhalds keppandinn þinn erlendis?

Held ég nefni Nathalia Melo og Ashley Kaltwasser. Einnig held ég upp á Justine Munro bæði vegna þess að hún er rosalega flottur keppandi og einnig því hún er mikill dýravinur eins og ég sjálf.

Hver er uppáhalds keppandinn þinn hér heima?

Aðalheiður Ýr er líklega uppáhalds þar sem hún er sönn fyrirmynd fyrir sportið og hefur náð gríðarlega flottum árangri og gerir allt 100% sem hún ætlar sér.
Margrét Gnarr, Unnur Kristín, Magnea og Kristbjörg eru líka fyrirmyndir mínar ásamt ótal fleirum, Ísland er með ótrúlega marga flotta keppendur!

Uppáhalds lögin í ræktinni?

Þau breytast nú frá degi til dags en ef ég vel 5 sem ég held upp á úr öllum áttum eru þau:

Why Don’t You Love Me – Beyoncé
Killing In The Name – Rage against the machine
Levels – Avicii
Think About you – Guns’n’Roses
Katy On A Mission – Katy B

Ef þú ættir að gefa öðrum keppendum eitt ráð, hvað væri það?

Taktu þér þinn tíma í undirbúningnum, það koma mót eftir næsta mót!